4. maí 2017
Hækkun sjávarstöðu á Höfuðborgarsvæðinu
Þrátt fyrir að þekking á mögulegum sjávarflóðum vegna loftlagsbreytinga hafi legið lengi fyrir og að Skipulag ríkisins hafi á árunum 1992 og 1995 gefið út reglur um skipulag byggðar á lágsvæðum þar sem hætta er á flóðum, hefur þessi vá ekki hlotið nægilega athygli og misbrestur er á að reglurnar hafi verið hafðar til hliðsjónar við skipulagsgerð. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu VSÓ Ráðgjafar „Hækkuð sjávarstaða á höfuðborgarsvæðinu. Áhrif og aðgerðir.
“Skýrslan er unnin með styrk úr rannsóknar- og þróunarsjóði Skipulagsstofnunar og eru skýrsluhöfundar Auður Magnúsdóttir, Grétar Mar Hreggviðsson og Kristín Þrastardóttir, sérfræðingar hjá VSÓ Ráðgjöf. Tilgangur verkefnisins var að greina áhrif hækkaðrar sjávarstöðu af völdum loftlagsbreytinga á byggð á höfuðborgarsvæðinu þannig að draga megi lærdóm af sem nýtist til framtíðarskipulagningar svæðisins. Meðal markmiða skýrslunnar var að kanna hvort farið hafi verið eftir fyrrnefndum skipulags- og byggingarreglum Skipulags ríkisins. Í skýrslunni er einnig farið yfir ábyrgð sveitarfélaga og ríkis á fyrirbyggjandi aðgerðum vegna hækkunar sjávarborðs af völdum loftlagsbreytinga.
Fjallað var um verkefnið á vef mbl.is þann 30.3.2017
Hækkuð sjávarstaða á höfuðborgarsvæðinu – Áhrif og aðgerðir (skýrsla)