19. ágúst 2015
Umhverfisskýrsla vegna kerfisáætlunar Landsnets
VSÓ Ráðgjöf hefur að undanförnu unnið að gerð umhverfisskýrslu vegna kerfisáætlunar Landsnets 2015-2024. Í kerfisáætluninni sem nú er til kynningar er gerð grein fyrir framtíðaruppbyggingu flutningskerfisins næstu 10 árin. Bornir eru saman tveir meginvalkostir annars vegar Hálendisleið og hins vegar Byggðaleið. Um tvo ólíka kosti er að ræða sem fela í sér umfangsmiklar en nauðsynlegar framkvæmdir, sem munu óhjákvæmilega valda neikvæðum umhverfisáhrifum.
Mat á áhrifum uppbyggingar
Grunnur að umhverfismati er samanburður valkosta. Þannig er hægt að meta hvort ákveðinn kostur hafi minni eða meiri umhverfisáhrif en annar. Skoðaðar voru mismunandi útfærslur s.s. leiðaval, spennustig, jarðstrengur/loftlína og nýting núverandi mannvirkja. Alls eru bornir saman 9 valkostir. Í vinnu við mótun kerfisáætlunar breyttist útfærsla einstakra valkosta og nýir urðu til. Áhrif þessara tveggja meginvalkosta eru ólík á land, landslag og ásýnd, lífríki, jarðmyndanir, vatnafar og samfélag. Til að mynda hefur Byggðaleiðin meiri áhrif á land og lífríki, en Hálendisleiðin meiri áhrif á landslag. Niðurstaða umhverfismatsins er sú að tvær útfærslur Hálendisleiðar þóttu fýsilegastar og ein útfærsla Byggðalínu. Við matið voru notaðar upplýsingar í landfræðilegu upplýsingakerfi til að meta umfang áhrifa á einstaka umhverfisþætti. Við mat á vægi þeirra, var litið til leiðbeininga Skipulagsstofnunar og stefnumörkunar stjórnvalda s.s. um ósnortin víðerni, náttúruverndarsvæði, sjálfbæra þróun, skipulagsáætlanir og lykil vistkerfi.
Hverjir mátu umhverfisáhrifin?
VSÓ Ráðgjöf hefur í gegnum tíðina unnið að umhverfismati fjölmargra áætlana s.s. samgönguáætlunar, fjarskiptaáætlunar, landsskipulagsstefnu og fjölmörgum skipulagsáætlunum. Að þessu sinni vann teymi sérfræðinga VSÓ Ráðgjafar að umhverfismatinu ásamt sérfræðingum Landsnets, enda er fjölbreytt og þverfagleg þekking mikilvæg. Mikilvægt er að leita ólíkra sjónarmiða og spyrja gagnrýninna spurninga, til að tryggja upplýsta ákvörðun um þetta mikilvæga málefni. Hluti af því er að kynna drög að matsvinnu fyrir hagsmunaaðilum, fagstofnunum og almenningi eins og nú er gert.
Kerfisáætlun í kynningu
Tillaga að kerfisáætlun Landsnets ásamt umhverfisskýrslu eru til kynningar þessa dagana og lýkur athugasemdafresti 1. september nk. Haldinn var opinn fundur 14. ágúst, sem var vel sóttur og skapaðist fjörug umræða, enda sýnist sitt hverjum um bestu lausn við uppbyggingu flutningskerfisins. VSÓ hvetur alla til að kynna sér framlögð gögn og aðferðarfræði og forsendur matsvinnunar.