7. júlí 2017
Borgarlínan
Borgarlína er risastór ákvörðun um hágæða almenningssamgöngur
„Það var risastór og stefnumótandi ákvörðun til framtíðar þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ákváðu við gerð svæðisskipulags 2015 að stefna að Borgarlínu, hágæða almenningssamgöngum,“ segir Stefán Gunnar Thors umhverfishagfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf. Stefán Gunnar var meðal þeirra sem tóku þátt í að kynna fyrstu tillögur um fyrirhugaða legu Borgarlínu, nýs samgöngukerfis, á fundi í Salnum í Kópavogi í byrjun júní. Hugmyndirnar byggja á valkostagreiningu dönsku verkfræðistofunnar COWI og fela í sér tillögu um heildarnet almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu sem byggt verður upp í áföngum. Gert er ráð fyrir að endanlegar tillögur um legu línunnar liggi fyrir í sumarlok.
Skemmtileg áskorun
Stefán Gunnar segir að með samstarfsyfirlýsingu sveitarfélaganna í desember 2016 hafi verkefnið verið fest í sessi en þar var meðal annars ákveðið að ljúka á þessu ári við að koma Borgarlínu inn í aðalskipulagsáætlanir sveitarfélaganna. „Með tilliti til framtíðar uppbyggingar og búsetuþróunar á svæðinu er mjög mikilvægt að menn sjái sem fyrst hvernig heildarnet almenningssamgangna kemur til með að líta út.“ Hann segir það skemmtilega áskorun að taka þátt í þessu viðamikla skipulagsferli með sveitarfélögunum og svæðisskipulaginu. „Við hjá VSÓ höfum aðstoðað svæðisskipulagsnefndina við að útbúa verk- og matslýsingu fyrir svæðisskipulagsbreytinguna og síðan við verklýsingu fyrir aðalskipulagsbreytingar fyrir öll sex sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.“ Í kjölfar þess hefur VSÓ síðan unnið að drögum að aðalskipulagsbreytingum ásamt umhverfismati fyrir öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. En þessi drög voru til kynningar til 20. júní.
Hann segir að með þátttöku í Borgarlínu felist ákveðin skuldbinding af hálfu sveitarfélaganna um að þétta byggð á þeim svæðum sem Borgarlínan mun liggja um. Í skipulagsferlinu verði varpað ljósi á hvernig þéttingin verði og sett fram greining á þeim áhrifum sem líklegt er að hún muni hafa.
Umferðarlíkan
Í dag nýta um 45 þúsund manns almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu eða um 4% þeirra sem ferðast um gatnakerfið á hverjum degi. Með Borgarlínu er stefnt að því að fjölga notendum almenningssamgangna í 180 þúsund eða í 12% árið 2040. Stefán Gunnar segir að VSÓ hafi á undanförnum árum þróað umferðalíkan fyrir höfuðborgarsvæðið sem hann telur að muni gagnast vel við að meta áhrif Borgarlínunnar á umferðarflæði og ferðatíma bæði almenningssamgangna og einkabíls. „Slík greining er síðan forsenda þess að hægt sé að meta áhrif þessara breytinga á hljóðvist, loftgæði og þjónustustig á götunum. Hver er biðtíminn, hver er ferðatíminn fyrir einkabílinn, hvernig verður ástandið árið 2040 þegar bæst hafa við 70 þúsund manns með og án Borgarlínu? Þetta eru allt spurningar sem leitað verður svara við í skipulagsferlinu,“ segir Stefán Gunnar.