19. janúar 2018
Borgarlína – kynning á forvinnu og forsendum
Á vel sóttum íbúafundi í Hafnarfirði þann 18. janúar sl. fór Hrafnkell Á. Proppé svæðisskipulagsstjóri vel yfir þá forvinnu og forsendur sem liggja að baki Borgarlínunni en grundvallarforsenda verkefnisins eru umferðarspár sem unnar hafa verið með umferðarlíkönum VSÓ.
Borgarlína er afkastamkikið kerfi almenningssamgangna sem ganga mun eftir samgöngu- og þróunarásum sem festir eru í svæðisskipulagi. Þannig byggja hugmyndir um Borgarlínu á þéttingu byggðar um leið og þær eru forsenda hennar.
Gert er ráð fyrir að íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgi um 40 þúsund fram til ársins 2030 en í greiningu og umferðarspám VSÓ eru tveir valkostir bornir saman:
1. 50 milljörðum varið í vegamannvirki og óbreyttar ferðavenjur.
2. 20 milljörðum varið í vegamannvirki og 30 milljörðum í Borgarlínu.
Fyrri möguleikinn leiðir af sér að bílferðum fjölgar um 234 þúsund á dag og tafir akandi í einkabílum aukast um 24%. Seinni möguleikinn verður þess valdandi að bílferðum fjölgar um 59 þúsund á dag en tafir akandi í einkabílum minnka.
Þannig bendir greiningin til þess að fjárfesting í Borgarlínu sé hagkvæmur kostur sem leiðir til fleiri valkosta, minni tafa þeirra sem aka í einkabílum og minna vistspors samgangna.
Ýmsar nánari upplýsingar um Borgarlínuna:
Upplýsingavefur Borgarlínunnar
Kynning Hrafnkels Á. Proppé á Borgarlínunni
Myndband frá kynningu Hrafnkels (erindi hans byrjar þegar u.þ.b. 10 mín eru liðnar af myndbandinu)