1. nóvember 2018
Draga úr loftslagsáhrifum bygginga
Viðtal við Sigríði Ósk Bjarnadóttur sem birtist í kynningarblaði Fréttablaðsins „Verkfræði og arkitektúr“ þann 31. október 2018.
Verkfræðistofan VSÓ Ráðgjöf skoðar umhverfisáhrif mannvirkja og býður upp á ýmsar lausnir til að auka sjálfbærni og draga úr loftslagsáhrifum þeirra, allt frá hönnun og skipulagi til niðurrifs.
VSÓ Ráðgjöf er alhliða ráðgjafar- og verkfræðifyrirtæki sem leggur áherslu á trausta og faglega þjónustu sem tryggir viðskiptavinum hagkvæmustu lausnir hverju sinni, skilar raunverulegum árangri og stuðlar að samkeppnisforskoti. Á skrifstofum VSÓ í Reykjavík og í Noregi starfar 85 manna samhentur hópur verkfræðinga og annarra tæknimenntaðra starfsmanna. „Víðtæk reynsla og þekking starfsmanna VSÓ byggir meðal annars á fjölbreyttum verkefnum sem fyrirtækið hefur unnið að hér á landi og erlendis á þeim 60 árum sem liðin eru frá því fyrirtækið var stofnað árið 1958,“ segir Sigríður Ósk Bjarnadóttir, doktor í byggingarverkfræði. „Í upphafi starfaði fyrirtækið einkum á sviði byggingarverkfræði en á áttunda áratugnum var farið inn á nýjar brautir með fjölbreyttari þjónustu til að mæta kröfum viðskiptavina. Starfsemi VSÓ er í dag skipulögð í sex meginfagsvið; framkvæmdaráðgjöf, samgöngur, tæknikerfi, umhverfi og skipulag, byggðatækni og burðarvirki.“
Bjóða leiðir til að minnka loftslagsáhrif
„VSÓ er leiðandi í að skoða áhrif mannvirkja á loftslagsbreytingar og býður upp á alls kyns úrlausnir sem byggja á sérþekkingu starfsmanna til að reyna að draga úr og bregðast við loftslagsbreytingum,“ segir Sigríður. „Við bjóðum verkkaupum upp á að fara það sem við köllum grænu leiðina og höfum gert það undanfarin ár. Þetta eru sem sagt lausnir sem henta við ýmis verkefni, til dæmis mannvirkjahönnun, umhverfi og skipulag og samgöngur. Við erum að vinna í mjög mörgum verkefnum varðandi loftslagsbreytingar og höfum gert það svolítið lengi,“ segir Sigríður. „Það þarf að draga úr loftslagsbreytingum og við þurfum öll að gera það sem við getum til að vinna að því markmiði. VSÓ býður upp á mikið af lausnum sem gagnast við það.“
Skoða heildarmyndina
„Þegar kemur að hönnun bygginga þarf að draga úr mengun og losun kolefnis bæði úr byggingunni sjálfri og við uppbyggingu hennar,“ segir Sigríður. „Við bjóðum upp á svokallað „Life Cycle Cost Analysis“ á sviði mannvirkjahönnunar, sem er mitt sérsvið. Þá skoðum við kostnaðinn við hönnun, uppbyggingu, afnot, viðhald og loks niðurrif byggingarinnar og reynum að finna hagkvæmustu og um leið umhverfisvænstu lausnina. Það sem er kannski ódýrast þegar kemur að hönnun og byggingu er ekki endilega ódýrast þegar horft er á heildarmyndina. Ef maður reynir að spara í uppbyggingunni getur byggingin til dæmis orðið dýrari í rekstri eða niðurrifi og þá hækkar heildarkostnaðurinn. Við viljum auka sjálfbærni og skoðum til dæmis efnisval og nýtingu efna og athugum hvort hægt sé að nota svokölluð léttburðarvirki. Þá eru efnin valin þannig að þau passi sem best saman og þá getur grundunin orðið ódýrari,“ segir Sigríður. „Við reynum líka mikið að draga úr úrgangi með því að endurnýta úrgang við aðra hluta byggingarinnar eða einhverja aðra byggingu.“
Mikilvæg og fagleg þjónusta
„Byggingar valda gríðarlegri kolefnislosun, þannig að þetta er svið sem við ættum að horfa til og reyna að bæta,“ segir Sigríður. „Það eru líka miklir möguleikar, sérstaklega með græna steypu og alls konar öðruvísi byggingar- og fyllingarefni. Það er ýmislegt til og það hafa orðið mjög miklar framfarir á þessu sviði á síðustu árum, en vandamálið er að fólk veit almennt ekki af því sem býðst. Það er í mörg horn að líta þegar maður fer að hugsa um þessa þætti og framfarirnar á þessu sviði eru stanslausar, en þetta er mjög mikilvægt. Þess vegna er full þörf á að fá ráðgjöf sérfræðinga í þessum efnum,“ segir Sigríður. „Við getum þjónustað allar gerðir af byggingarframkvæmdum, hvort sem það er sumarbústaður í sveitinni eða nýr Landspítali við Hringbraut. Við sjáum um allar hliðar skipulags og hönnunar og lítum til allra nauðsynlegra þátta til að reyna að draga eins mikið úr loftslagsbreytingum og við getum. Þeir sem vilja byggja geta komið til okkar og fengið þá vissu að það sé allt unnið eftir bestu mögulegu aðferðum,“ segir Sigríður. „Við gerum líka allt sem við getum til að sníða þjónustuna að þörfum hvers og eins og að sjá til þess að fólk fái það sem það vill út úr mannvirkinu.“
Alls kyns mikilvæg verkefni í vinnslu
„Við vinnum í mörgum og fjölbreyttum verkefnum. Við erum með Borgarlínuna og erum að skoða vistvæna ferðamáta, sem er mjög í anda þess að draga úr loftslagsbreytingum,“ segir Sigríður. „Svo erum við að skoða ýmis mál sem tengjast orkuskiptum. Við höfum m.a. hannað 47 rafhleðslustöðvar. Við höfum líka kortlagt svæði sem eru í flóðahættu í tengslum við hækkun sjávarborðs. Það er enn eitt vandamálið sem tengist loftslagsbreytingum. Það hefur ekki verið skoðað mikið hér á landi en er mikilvægt viðfangsefni fyrir samfélagið. Við höfum mikið unnið að skipulagsmálum í kringum þéttingu byggðar og unnið umhverfismat á ýmsum verkefnum,“ segir Sigríður. „Við höfum líka komið að rannsóknum á sviði úrgangsstjórnunar til að minnka úrgang sem fylgir byggingum. Þar hefur verið skoðað að minnka urðun úrgangs, flokka betur og koma meira af efnum til endurvinnslu og jarðgerðar. Þetta er bara brot af þeim ótal mörgu verkefnum sem VSÓ sinnir á þessu sviði,“ segir Sigríður. „Það er hægt að bæta nýtingu og minnka kolefnislosun í byggingum á mjög marga mismunandi vegu og VSÓ skoðar vandamálið frá mörgum ólíkum hliðum.“
Hér má nálgast kynningarblað Fréttablaðsins