28. ágúst 2020
Nýtt fiskvinnsluhús á Dalvík tekið í notkun
Nýverið var tekið í notkun eitt fullkomnasta fiskvinnsluhús landsins, á Dalvík. Byggingin er 9.000 fermetrar að stærð og er allur tækjabúnaður vinnslunnar og aðbúnaður starfsfólks eins og best verður á kosið. Meginstarfsemin fellst í vinnslu þorsks og ýsu og er vinnslan mjög sérhæfð. Mikil áhersla er lögð á gæði og hreinlæti og er húsið samþykkt af helstu verslunarkeðjum í Evrópu. Framleiðslukerfið er tölvustýrt og skráningar tryggja rekjanleika vörunnar frá veiðum til viðskiptavinar.
Í fiskvinnslu eru gríðarlegar kröfur um hreinlæti og gæði. Sem dæmi þarf öfluga hitastýringu í vinnslusal og víðar sem styður við ferskleika vörunnar. Loftræsistokkar í vinnslusal eru örverueyðandi og þrífanlegir, sem á sinn þátt í að uppfylla strangar hreinlætiskröfur í matvælaiðnaði.
Á tæknilofti fiskvinnslunnar eru til að mynda sex loftræsisamstæður fyrir utan fjöldann allan af atex-útsogsblásurum, reykútsogi, inn-og útsogsblásurum í húsinu. Hitamyndun í kælikerfum er að auki nýtt til upphitunar á innblásturslofti til viðbótar við hefðbundna varmaendurvinnslu í loftræsisamstæðu.
Sem dæmi um áhugaverðar lausnir sem stuðla að aukinni nýtingu hliðarafurða þá er starfssemi hausaþurrkunar í sömu götu og fiskvinnslan. Fiskihausum er dælt frá fiskvinnslunni í stórri lögn undir götuna og yfir í húsnæði þurrkunarinnar. Afgangshiti sem fellur til í hausþurrkunninni nýtist svo til snjóbræðslu á stóru afhafnasvæði fiskvinnslunnar, en heildarlengd snjóbræðsluslaufa á lóðinni er tæplega 20 km.
Árvatn er síað og notað af flökunarvélum, kælieiningum og í hausdælingum til viðbótar við vatnsveituna.
Kjartan Helgason fagstjóri lagna- og loftræsikerfa hjá VSÓ kom fram í viðtali hjá N4 þar sem fjallað var um hönnun, uppbyggingu og starfsemi fiskvinnslubyggingarinnar. Viðtalið við Kjartan má finna í hlekknum hér að neðan á mínútu 16:05.
VSÓ Ráðgjöf sá um hönnun lagna og loftræsingar í fiskvinnslunni í samstarfi við AVH arkitekta. Í því felast slökkvikerfi, snjóbræðsla, hitakerfi, neysluvatnskerfi, fráveita og loftræsing.