28. apríl 2021
Jarðtækni í Noregi
Hjá VSÓ starfar öflugt teymi jarðtækniverkfræðinga sem vinna að fjölbreyttum verkefnum sem lúta að því að tryggja stöðugleika jarðvegs við byggingu húsa, vega og annarra mannvirkja. Meðal nýlegra hönnunarverkefna jarðtækniteymis VSÓ hérlendis má t.d. nefna grunn Meðferðarkjarna nýja Landspítalans, snjóflóðavarnargarð við Urðarbotn á Neskaupsstað og sjóvarnargarð við Vogabyggð í Reykjavík.
Jarðtækniteymi VSÓ hefur undanfarin ár jafnframt sinnt verkefnum í hundraðavís við jarðtæknirannsóknir í Noregi og getið sér við það góðan orðstír. Jarðvegsaðstæður í Noregi eru um margt krefjandi og ólíkar þeim sem við þekkjum hér á Íslandi. Þar má m.a. nefna kvikleir sem er sérlega varhugaverður og viðkvæmur fyirir allri hreyfingu, eins og frægt varð í byrjun árs eftir að kvikleirskriða féll í bænum Ask með hörmulegum afleiðingum. Jafnframt geta jarðvegstaðstæður verið mjög ólíkar á tiltölulega litlu svæði t.d. á lóðum sem eru hlið við hlið eða jafnvel innan sömu lóðar.
Grein varðandi störf VSÓ á sviði jarðtækni í Noregi birtist á dögunum í Byggmagasinet á norska vefmiðlinum rb.no. Byggmagasinet er fylgiblað með Romerikes blad sem er staðarblað þess landsvæðis þar sem VSÓ er með höfuðstöðvar útibús síns í Noregi. Greinin er að sjálfsögðu skrifuð á norsku en má í heild finna hér á vefnum.
VSO Consulting – Gjør beregninger av bakken