14. nóvember 2022

Rannsóknaskýrsla um gerð deiliskipulags fyrir þjóðvegi í þéttbýli

​Á nýafstaðinni Rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar kynnti Andrea Kristinsdóttir, skipulagsfræðingur hjá VSÓ, rannsóknarskýrsluna Deiliskipulag þjóðvega í þéttbýli.

Í skýrslunni, sem unnin er fyrir styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar, er fjallað um helstu þætti sem taka þarf til umfjöllunar eða afmarka í slíku deiliskipulagi. Yfirstjórn Vegagerðarinnar hefur samþykkt að gefa verkefnið út sem formlegar leiðbeiningar og skýrslan fer því nú í sérstakt rýniferli hjá Vegagerðinni og verður í kjölfarið gefin út í formi leiðbeininga um deiliskipulag þjóðvega í þéttbýli og gefin út sérstaklega.

Í skýrslunni eru tekin saman gildandi ákvæði laga og reglugerða og umfjöllun í leiðbeiningum Vegagerðarinnar, Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna um gerð deiliskipulags þjóðvega í þéttbýli. Einnig er fjallað um hvort og þá hvenær æskilegt er að vinna deiliskipulag fyrir vegsvæði og um helstu kosti þess að vinna deiliskipulag.

Á síðustu árum og áratugum hefur það aukist jafnt og þétt að unnið sé deiliskipulag fyrir svæði sem til stendur að fara í framkvæmdir á. Til að byrja með var deiliskipulag aðallega unnið fyrir byggð en á síðustu árum hefur það færst í vöxt að vinna deiliskipulag fyrir vegsvæði. Þessi þróun hefur orðið samhliða því að aukin krafa er gerð um að horft sé heildstætt á hvernig ólíkir samgöngumátar nýta vegsvæði, sem og aukinn krafa um samráð og upplýsingagjöf þegar kemur að framkvæmdum almennt.

Fjölmargir kostir fylgja því að vinna deiliskipulag, þó að það taki tíma og því fylgi kostnaður. Í deiliskipulagsvinnu er almennt breiðari sýn en í veghönnun eingöngu. Þá gefst tækifæri til að skoða samhengi vegsvæðisins við aðrar áætlanir. Tækifæri gefst fyrir sveitarfélög og Vegagerðina að samræma sínar áætlanir og framtíðarsýn fyrir vegsvæðið, m.a. hvað varðar umferðaröryggi og gæði uppbyggingar.

Við gerð deiliskipulags skapast möguleikar á að hafa samráð við almenning og hagsmunaaðila, s.s. fyrirtæki sem tengjast samgöngumálum, stofnanir, veitufyrirtæki og hagsmunasamtök um verkefnið. Það er jákvætt að fá sjónarmið fram fyrr í skipulagsferlinu og þannig má koma auga á mögulega vankanta eða ágreiningsmál sem betra er að leysa í upphafi verkefnis frekar en að þau mál tefji framkvæmd á seinni stigum.

Síðast en ekki síst veitir deiliskipulag traustari grunn fyrir veitingu framkvæmdaleyfis fyrir byggingu vegarins þar sem framkvæmdaleyfi er veitt á grunni deiliskipulags. Ef ekki er deiliskipulag í gildi er það veitt á grunni aðalskipulags. Hins vegar er í mörgum tilvikum ekki fjallað um vegsvæði með nákvæmum hætti í aðalskipulagi og þá getur leikið vafi á því hvort að framkvæmdir á vegsvæði séu í samræmi við aðalskipulag. Ef unnið er deiliskipulag er það alveg skýrt að framkvæmd er í samræmi við skipulag. Þá eru líkur á að í deiliskipulagsferlinu sé búið að leysa úr ágreiningsmálum sem mögulega hefðu getað tafið veitingu framkvæmdaleyfis og þannig framgang verkefnisins.

Kynningu á leiðbeiningariti um deiliskipulag þjóðvega í þéttbýli er hægt að lesa með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.

Deiliskipulag þjóðvega í þéttbýli.


Nánari upplýsingar veitir:

Andrea Kristinsdóttir
Skipulagsfræðingur M.Sc.
andreak@vso.is
s: 585 9188