Blágrænar ofanvatnslausnir
Með notkun vistvænna blágrænna ofanvatnslausna er ofanvatni veitt niður í jarðveginn um gegndræp yfirborð t.d. í regnbeð eða á græn svæði. Jarðvegurinn og gróðurinn hreinsar ofanvatnið af óhreinindum og annarri mengun.
Grunnmarkmiðið er að standa þannig að hönnun og uppbyggingu innviða, þar sem land er brotið undir byggð, að sem mest sé líkt eftir náttúrulegri hringrás vatns og upphaflegur vatnsbúskapur uppbyggingarsvæðisins sé varðveittur sem best.
Í þessu felst m.a. að:
- Draga úr magni ofanvatns.
- Lágmarka stærð nýrra ofanvatnskerfa og/eða gera núverandi veitukerfum á þéttingarsvæðum. kleift að anna þeirri viðbót sem þéttingin hefur í för með sér.
- Vernda og varðveita grunnvatn og votlendi.
- Vernda viðkvæma viðtaka og lífríki.
- Forðast beina og óhefta losun ofanvatns úr lagnakerfum í litla og viðkvæma viðtaka.
- Skapa aðlaðandi, fallegt og náttúrulegt umhverfi.
VSÓ veitir ráðgjöf og hannar lausnir svo ná megi ofangreindum markmiðum. Í skilmálum deiliskipulags eru oft sett skilyrði um að allt yfirborðsvatn og regnvatn sem fellur til á svæðinu verði meðhöndlað með blágrænum ofanvatnslausnum.
Við hönnun stefnir VSÓ ávallt að því að lágmarka kolefnisspor og draga úr sóun. Við hönnun á dvalar- og leiksvæðum er kolefnisspor byggingarefnis haft í huga. Forðast er að nota vörur sem fluttar eru langar leiðir og reynt er að nota mikinn gróður.
Á síðustu árum hefur aðferðafræði blágrænna ofanvatnslausna með góðum árangri verið notuð við hönnun torga og göturýma, bæjarhluta og útisvæða. Aðferðir við hönnun blágrænna ofanvatnslausna eru í stöðugri þróun hér á landi og tekur VSÓ virkan þátt í henni. Meðal verkefna má nefna hönnun ofanvatnslausna á Hlemmtorgi og í Vogabyggð 2 í Reykjavík. Einnig hefur VSÓ sinnt fjölmörgum verkefnum í Noregi á þessu sviði.
Árni Snær Kristjánsson
Sviðsstjóri byggðatækni
Byggingarverkfræðingur M.Sc.
ask@vso.is
s: 585 9174