28. júní 2023

Endurbætur á stoppistöðvum almenningssamgangna á landsbyggðinni

Skýrslan Endurbætur á stoppistöðvum almenningssamgangna á landsbyggðinni hefur verið gefin út en um er að ræða afrakstur vinnu VSÓ Ráðgjafar sem var styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.

Meginmarkmið verkefnisins var að aðstoða Vegagerðina við að bæta aðstöðu faltaðs fólks á stoppistöðvum almenningssamgangna á landsbyggðinni, með því að útbúa grunnhugmyndir að stoppistöðvum sem nýta má til að hefja viðræður við ríki, sveitarfélög og aðra landeigendur um mögulegar úrbætur stoppistöðva almenningssamgönguvagna á landsbyggðinni.

Grunnur verkefnisins voru niðurstöður úttektar VSÓ Ráðgjafar fyrir ÖBÍ á ástandi stoppistöðva á landsbyggðinni þar sem fram kom að ástand væri víða bágborið að þessu leyti. Með endurbótum á stoppistöðvum á landsbyggðinni eru íslensk stjórnvöld m.a. að uppfylla samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem var fullgiltur 2016, sem tryggir að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi og tekið fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.á.m. að geta farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs, á þeim tíma sem það velur.

Teknar voru fyrir nokkrar stoppistöðvar á Hringveginum þar sem aðgengi var sérlega ábótavant skv. úttekt VSÓ Ráðgjafar, og gerð tillaga að úrbótum á þeim stoppistöðvum. Þá er einnig bent á minni, en mikilvægar, breytingar sem þarf að gera á stoppistöðvum á landsbyggðinni.

Endurbætur á stoppistöðvum almenningssamgangna á landsbyggðinni 2023, skýrsla.

Ástand stoppistöðva á landsvísu 2022, eldri frétt.


Nánari upplýsingar veitir:

Ragnar Þór Þrastarson 
Iðnaðar- og rekstrarverkfræðingur M.Sc.
ragnar@vso.is
s: 585 9208