26. janúar 2017
Orkuskipti leiða til sparnaðar í losun CO2 og aukinnar aflþarfar
VSÓ hefur ásamt Landsneti unnið að samantekt á mögulegum orkuskiptum á Íslandi þar sem jarðefnaeldsneyti er skipt út fyrir raforku. Markmiðið var að varpa ljósi á hver möguleg áhrif orkuskipta á aflþörf og sparnað í losun CO2 kynni að vera árið 2030.
Niðurstaðan er sú að ef allar samgöngur á landi, allir bílaleigubílar og hópferðabílar á vegum ferðaþjónustunnar, fiskimjölsverksmiðjur og tæki í iðnaði yrðu rafvædd og skip í höfnum gætu tengst við raforkukerfi myndi aflþörf aukast um 660 til 880 MW. Sparnaður í losun CO2 yrði tæplega 1,5 milljón tonn á ári sem eru á við um 32% af heildarlosun Íslands árið 2014.
Einnig var litið til þess að orkuskiptin næðu til aðeins hluta bifreiða, tækja og búnaðar en þá var sparnaðurinn um 8% af losun árið 2014.
Greining á orkuskiptum var gerð samhliða vinnu við kerfisáætlun Landsnets 2016-2025 en VSÓ sinnti jafnframt umhverfismati áætlunarinnar.
Fjallað var um verkefnið á vef RUV þann 10. janúar sl. og rætt við við Auði Magnúsdóttur umhverfisstjórnunarfræðing hjá VSÓ og Sverri Norðfjörð framkvæmdastjóra Landsnets.