9. janúar 2018
Af hverju ferðast Íslendingar oftar á hverjum degi en flestir aðrir?
Skýrslan „ Ferðir á einstakling – Samanburðarathugun á gerð og úrvinnslu ferðavenjukannana hérlendis og erlendis“ var gefin út á dögunum en um er að ræða rannsóknarverkefni sem VSÓ vann fyrir Vegagerðina.
Ferðavenjukannanir gefa gríðarlega mikilvægar upplýsingar fyrir alla þá sem starfa að skipulags- og samgöngumálum og gera m.a. mögulegt að fylgjast með þróun og breytingum á hegðunarmynstri. Þannig gefa þær t.d. mikilvægar grunnforsendur fyrir spálíkön. Mikilvægi þeirra eykst svo enn frekar þegar reynt er að spá fyrir um breytingar á ferðamáta og áhrif breytinganna á framtíðarumferð.
Staðreyndin er hinsvegar sú að niðurstöður ferðavenjukannana á Íslandi hafa jafnan vakið nokkra furðu þegar þær eru bornar saman við niðurstöður ferðavenjukannana í nágrannalöndunum því þær gefa í skyn að íbúar hérlendis fari mun fleiri ferðir að meðaltali á dag heldur en íbúar í samanburðarlöndunum.
Verkefnið var upphaflega hugsað sem rýni á aðferðarfræði og niðurstöðum ferðavenjukannana, með það að markmiði að meta hvort munur væri á skilgreiningu eða mælingu á ferðafjölda. Fljótlega komu þó fram vísbendingar um að ekki væri sjáanlegur munur aðferðum, mælingum eða túlkunum. Því fór áherslan meira í þá átt að finna mögulegar skýringar á því af hverju Íslendingar eru meira á ferðinni en nágrannaþjóðirnar.
Greiningin sýnir að ástæður þess kunni mögulega að liggja í því að virkni fólks á atvinnumarkaði og aðgengi að bíl er mun meira á Íslandi en í samanburðarríkjunum. Þá eru einnig óvenju fáir einstaklingar á Íslandi sem fara engar ferðir, þ.a.m. í elsta aldurshópnum. Samþætting þessara atriða auk stuttra vegalengda er talin vera líkleg skýring á því að á Íslandi eru farnar fleiri ferðir á dag en víðast hvar annarstaðar.
Skýrsluna í heild má finna hér á vefnum.