8. nóvember 2024
Álagsstýring í brennidepli á degi ferðaþjónustunnar
Yfirskrift ferðaþjónustudagsins sem haldinn var í október sl. var „Álagsstýring á fjölsóttum ferðamannastöðum“. Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) stóðu að viðburðinum í samstarfi við Ferðamálastofu, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarð og Þingvallaþjóðgarð.
Á ráðstefnunni var fjallað um álagsstýringu á fjölsóttum ferðamannastöðum og sjónum m.a. beint að áskorunum og reynslu hér á landi sem og erlendis og samtali stjórnvalda og fyrirtækja í ferðaþjónustu um þetta mikilvæga viðfangsefni. Álagsstýring er ríkur þáttur í stefnumótun ferðaþjónustunnar eins og kemur fram í samþykkt Alþingis á þingsályktunartillögu sem ráðherra ferðamála lagði fram í apríl 2024.
VSÓ Ráðgjöf vann árið 2021 ítarlega greinagerð fyrir ráðuneyti ferðamála um álagsstýringu undir heitinu Álagsstýring á ferðamannastöðum – Yfirlit almennra aðgerða. Skýrslunni var ætlað að koma með tillögur að aðgerðum í verkfærakistu til álagsstýringar fyrir ferðamannastaði. Þær tillögur voru rýndar í tengslum við mótun áherslna í ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030. Í þeirri stefnu er m.a. fjallað um umhverfislega þætti, að áhersla skuli lögð á jafnvægi milli hagnýtingar og verndar náttúru og að uppbygging innviða taki mið af því. Þá er einnig lögð áhersla á virðingu fyrir þolmörkum og álagsstýringu á áfangastöðum ferðamanna.