8. september 202
Alvarleiki umferðarslysa minnkar með því að verja fleiri vinstri beygjur en slysatíðni eykst
VSÓ Ráðgjöf vann nýverið verkefni fyrir Rannsóknarsjóð Vegagerðarinnar þar sem gerð var slysagreining á mismunandi útfærslum varinna vinstri beygjufasa á ljósastýrðum gatnamótum höfuðborgarsvæðisins.
Markmið verkefnisins var að kanna hvort munur væri á umferðaröryggi fyrir mismunandi fyrirkomulag ljósastýringa þar sem vinstri beygjur eru varðar. Þegar vinstri beygjur eru varðar á fjögurra arma gatnamótum eru vinstri beygjur umferðar úr gagnstæðum áttum ýmist leyfðar á sama tíma meðan umferð beint áfram bíður (X:), eða vinstribeygja er leyfð samhliða umferð beint áfram (Y). Fyrirkomulag X er nefnt „vinstri leiðir“ ef vinstri beygja fer á undan beinum straum; annars „vinstri laggar“, en „leiðir-laggar“ fyrir fyrirkomulag Y.
Allur gangur er á hvort beygjur séu bara varðar á aðalstefnu, eða líka hliðarstefnu. Lagt er til að þegar bæði aðal- og hliðarstefna er varin að talað sé um að gatnamótin séu „fullvarin“ en „hálfvarin“ ef eingöngu ein stefna er varin. Annars óvarin.
Með ofangreindum skilgreiningum var úrtak 20 gatnamóta á höfuðborgarsvæðinu sem hafa varðar vinstri beygjur flokkuð og borin saman með tilliti til umferðaröryggis á tímabilinu 2015-2019.
Í ljós kom að fullvarin gatnamót hafa tilhneigingu til að hafa hærri slysatíðni (árekstrar með og án meiðsla), en alvarleiki þeirra slysa sem verða við hálfvarin gatnamót hefur tilhneigingu til að vera meiri.
Orsökin virðist vera að atvik skráð sem „árekstrar við gatnamót“ eða „árekstur við beygju inn í götu“ eru hlutfallsega algengari við hálfvarin gatnamót („árekstrar við gatnamót“ valda meiðslum í 25% tilvika) , en aftanákeyrslur eru hlutfallslega algengari við fullvarin gatnamót (meiðsli í 6% tilvika).
Þau 4 gatnamót sem komu verst út (alvarleikastuðull > 2,8) eru öll hálfvarin. Þessi gatnamót höfðu þó fæst skráð tilvik á bakvið sig svo einhverjar líkur eru á að þær niðurstöður séu bjagaðar. Verstu tvö gatnamótin í úrtaki voru við Hringbraut, og þar á eftir tvenn gatnamót við Breiðholtsbraut sem gefur vísbendingar um að þar séu vandamál sem mætti skoða nánar.
Samandregið má segja að niðurstöður þessarar rannsóknar styrki stoðir fyrri rannsókna hvað varðar að vinstri beygjur auki umferðaröryggi. Enn fremur eru sterkar vísbendingar um að enn betra öryggi fáist með því að verja báða vegi sem koma að gatnamótum, ekki bara annan þeirra. Þar sem ekki var munur á milli þess hvernig vinstri beygju fasar eru varðir („vinstri leiðir“/ „vinstri laggar“ eða „leiðir-laggar“) gefur sú niðurstaða ljósastýringarhönnuðum frelsi til að hanna varða vinstri beygju ljósafasa fyrst og fremst með tilliti til afkastagetu.