4. maí 2016
Aukin áhersla samfélagslegra þátta við umhverfismat áætlana
Á undanförnum árum hefur VSÓ Ráðgjöf sérhæft sig í að meta umhverfisáhrif skipulags- og framkvæmdaáætlana áður en þær eru afgreiddar og þeim hrint í framkvæmd. Þannig hefur VSÓ komið að umhverfismati skipulagsáætlana fjölmargra sveitarfélaga, samgöngu- og fjarskiptaáætlana stjórnvalda og kerfisáætlunar Landsnets svo nokkrar séu nefndar. Lög um umhverfismat áætlana tóku gildi hér á landi árið 2006 og er markmið þeirra að stuðla að sjálfbærri þróun, draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða.
VSÓ hefur nýlokið umhverfismati Samgönguáætlunar 2015 til 2026 og er hún meðal þeirra mála sem verða lögð fyrir Alþingi í sumar. „Samgönguáætlun er endurskoðuð á fjögurra ára fresti og þetta er í þriðja skipti sem við hjá VSÓ framkvæmum slíkt mat,“ segir Sigríður Droplaug Jónsdóttir umhverfissérfræðingur hjá VSÓ. Hún segir að samkvæmt lögum beri að umhverfismeta skipulags- og framkvæmdaáætlanir sem meðal annars eru undirbúnar og samþykktar af stjórnvöldum og marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem þurfa að fara í mat á umhverfisáhrifum.
Styður upplýsta ákvörðun
Sigríður undirstrikar að gera verði greinamun á mati á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda og umhverfismati áætlana sem geti falið í sér framkvæmdir sem líklegar eru til að hafa veruleg áhrif á umhverfið. Hún nefnir sem dæmi að í skipulagsáætlunum sveitarfélaga felist yfirleitt áform um framkvæmdir sem þurfi að meta. „Þegar við umhverfismetum slíkar áætlanir bendum við meðal annars á þá umhverfisþætti sem fjalla þarf um þegar farið verður í mat á umhverfisáhrifum sjálfra framkvæmdanna. Með þessu er stuðlað að því að þeir sem móta stefnuna taki upplýsta ákvörðun um þau umhverfisáhrif sem stefnan felur í sér.“
Sigríður segir að á þeim tíu árum sem liðin eru frá fyrsta umhverfismati áætlunar hafi áherslur verið að þróast og nú sé fleiri þáttum gerð betri skil en áður. Samkvæmt leiðbeiningum Skipulagsstofnunar ber að líta til nokkurra tilgreindra umhverfisþátta við umhverfismat áætlana. Hún segir að framan af hafi áherslan verið meiri á náttúrufar en minni á samfélagslega- og hagræna þætti. Þetta sé nú að breytast og nú sé meiri gaumur gefinn að samfélagslegum þáttum án þess að dregið hafi úr umfjöllum um aðra þætti.
Skýrari viðmið um náttúrufar
„Þegar til dæmis er fjallað um áhrif háspennulína er gjarnan vísað til þess að það séu afturkræfar framkvæmdir út frá náttúrufræðilegum viðmiðum vegna þess að hægt sé að taka þær niður án þess að náttúran hafi skaðast. Hins vegar leiða menn oft hjá sér hugsanleg samfélagsleg áhrif, því að raflínan er kannski grundvöllur nálægðrar byggðar. Slík umfjöllun hefur að mínu mati fengið of litla vigt en það mun væntanlega breytast.“
Sigríður segir að ein ástæða þess að meira hafi verið fjallað um náttúrufar en samfélagslega þætti sé sú að öll viðmið um náttúrufar séu skýrari. Þau sé meðal annars að finna í lögum, náttúruminjaskrá og í náttúruverndaráætlun. Þegar komi að því að fjalla um samfélagslega þætti skortir hins vegar jafn skýr viðmið. Sigríður telur að áherslur í umhverfismati muni alltaf endurspegla umhverfið sem unnið er í. „Ef þú ert til dæmis að vinna í mjög þéttbýlu umhverfi í miðri Evrópu mun samfélagslegi þátturinn óhjákvæmilega verða mjög fyrirferðamikill. Hér í strjálbýlinu og í okkar miklu víðáttum er eðlilegt að áherslur á náttúrufarslega þætti séu sterkari. Þetta breytir ekki því að þróunin mun mjög líklega leiða til þess að vægi samfélagslegra þátta heldur áfram að aukast á komandi árum,“ segir Sigríður Droplaug Jónsdóttir umhverfissérfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf.