Nýjar skíðalyftur og snjóframleiðsla í Bláfjöllum
Snjóleysi og biðraðir í lyftur í Bláfjöllum ætti núna að heyra sögunni til því tvær nýjar skíðalyftur og snjóframleiðslukerfi hafa verið tekin í notkun á skíðasvæðinu. Lyfturnar, nýja Drottningin og nýi Gosinn, eru fjögurra sæta stólalyftur sem hvor um sig hefur flutningsgetu upp á 2.400 manns á klukkustund. Nýi Gosinn er t.a.m. 400 metra langur og ekki tekur nema rétt rúma mínútu að komast með honum upp á topp. Snjóframleiðslan mun svo ekki einungis lengja skíðatímabilið heldur einnig tryggja gott færi hvenær sem veður leyfir til skíðaiðkunar.
Gömlu lyfturnar voru orðnar úr sér gengnar og svo gamlar að erfitt var orðið að fá í þær varahluti. Gamli Gosinn hefur af þessum sökum ekki verið í notkun síðan 2018 og núna hafa bæði gamli Gosinn og gamla Drottningin verið lagðar niður og nýjar lyftur tekið við.
Til stóð að nýi Gosinn yrði opnaður í nóvember og Drottningin ári síðar en vegna hagstæðra veðurskilyrða og góðrar samvinnu allra sem að verkefninu komu náðist að opna báðar lyfturnar fyrir lok árs 2022. Ekki aðeins lauk verkefninu á undan áætlun, heldur einnig innan þess kostnaðarramma sem því var sett.
Ráðast þurfti í heljarinnar framkvæmdir til þess að koma upp kerfum fyrir snjóframleiðslu. Til þess að tryggja snjómagn þurfti að bora 355 metra eftir vatni, útbúa þurfti 12.00 rúmmetra lón til að geyma vatnsforðann og byggja 900 kílówatta dælustöð. Afl stöðvarinnar gerir Bláfjöllum kleift að keyra 8 snjóbyssur samtímis, sem teknar voru í notkun í lok árs 2023.
Hlutverk VSÓ í verkefninu:
- Verkefnisstjórn.
- Umsjón með leyfisveitingum, samráð við hagsmunaaðila og yfirvöld.
- Gerð útboðsgagna fyrir lyftur og snjóframleiðslukerfi.
- Faglegt eftirlit með framkvæmdum.
- Fjárhagslegt eftirlit og rekstur verksamninga.
Verktími: 2015-2023.
Verkkaupi: Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins.