28. nóvember 2017
Forneburingen barnehage
Nýr leikskóli Forneburingen barnehage með aðstöðu fyrir allt að 300 börn í Bærum kommune var nýlega tekinn í notkun. Leikskólinn er á Fornebu svæðinu sem hefur verið í mikilli uppbyggingu allt frá því aðalflugvöllur Osló var lagður þar af fyrir um 20 árum. Nokkur af stærstu fyrirtækjum Noregs ásamt mörgum alþjóðlegum fyrirtækjum hafa byggt upp aðalstöðvar sínar á Fornebusvæðinu og samhliða því hefur verið mikil fjölgun íbúa á svæðinu.
Til að mæta þörfum íbúa á svæðinu fyrir leikskólapláss hefur Bærum kommune byggt upp bráðabirgðaleikskóla á svæðinu og sá nýjasti er Forneburingen barnehage. Skólinn var hannaður og byggður á aðeins 8 mánuðum. Skólinn er samtals 3.700 m² og samanstendur af þremur aðalbyggingum sem tengdar eru saman. Það sem er sérstakt við þennan skóla er að hann er alfarið byggður úr forsmíðuðum einingum sem stendur til að fjarlægja / rífa eftir u.þ.b. 10 ár. Að þeim tíma liðnum er áætlað að varanlegar leikskólabyggingar verði teknar í notkun.
VSO Consulting AS í Noregi tók þátt í hönnunar- og framkvæmdaferlinu með margþætta ráðgjöf og hannaði m.a. öll útisvæði með tilheyrandi lögnum fyrir yfirborðsvatn ásamt því að veita ráðgjöf á sviði jarðtækni og jarðvinnu. Leikskólalóðin sem er 13.000 m² þykir vel heppnuð með leiktækjum í bland við hóla og hæðir sem nýtast börnum í leik jafnt sumar sem vetur.