16. júlí 2015
Framkvæmdir hafnar við Klettaskóla
Framkvæmdir eru hafnar við nýbyggingu og endurbætur á Klettaskóla í Reykjavík, en þetta er með stærri byggingarverkefnum sem sett hafa verið af stað í höfuðborginni eftir hrun. VSÓ Ráðgjöf sér um alla verkfræðihönnun aðra en hljóð- og brunahönnun og er gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki haustið 2018. Klettaskóli er sérskóli á grunnskólastigi sem þjónar öllu landinu. Hann tók til starfa árið 2011 og leysti þá af hólmi Safamýrarskóla og Öskjuhlíðaskóla.
Rúmlega 6700 fermetrar
Nýbyggingarnar tengjast skólahúsunum sem fyrir eru á lóðinni og er útlit þeirra hannað af OG arkitektum sem einnig hönnuðu eldri byggingar skólans. Reist verður rúmlega 2700 fermetra nýbygging sem mun meðal annars hýsa íþróttasal, sundlaugar, búningsaðstöðu, eldhús og hátíðarsal. Þá verður starfsmannaaðstaða byggð ofan á eldri tengibyggingu auk félagsmiðstöðvar sem verður niðurgrafin, samtals um 1100 fermetrar. Einnig verða gerðar breytingar á eldra húsnæði skólans sem eru um 2900 fermetrar. Heildarbyggingamagnið sem hér um ræðir er því rúmlega 6700 fermetrar og heildarkostnaður vegna framkvæmdanna er áætlaður um 2,6 milljarðar króna.
Hljóðeinangrandi veggur
Vegna framkvæmdanna þarf að fjarlægja mikið af bergi úr lóðinni og verður það gert með vel undirbúnum sprengingum frekar en að fleiga allt bergið því talið er að það valdi minna ónæði. Símon segir að lögð sé áhersla á að ganga eins varlega fram og frekast er unnt til að valda sem minnstri truflun. Gert er ráð fyrir að jarðvinnu ljúki fyrir lok ágúst og að þá muni hinar eiginlegu byggingaframkvæmdir hefjast. Byrjað er að reisa hljóðeinangrandi trévegg í kringum byggingarsvæðið til að draga úr hljóðmengun. Það voru Dagur Eggertsson borgarstjóri og nemendur Klettaskóla sem tóku fyrstu skóflustungurnar að nýbyggingunni í lok apríl. Á vef Reykjavíkurborgar er haft eftir Erlu Gunnarsdóttur skólastjóra að þessar framkvæmdir muni gjörbylta starfi skólans og skapa nemendum hans nýja möguleika.
Púsluspil
Undir venjulegum kringumstæðum er hægt að ljúka framkvæmd sem þessari á talsvert skemmri tíma, en vegna sérstöðu skólastarfsins og þess að ekki var hægt að færa starfsemina á meðan á byggingarframkvæmdum stóð verður verkið unnið á lengri tíma eða þremur árum og reynt eins og kostur er að raska skólastarfinu sem minnst. Það verður talsvert púsluspil,“ segir Símon Unndórsson verkefnisstjóri hjá VSÓ Ráðgjöf. Hann segir að til að koma til móts við íbúa í nágrenninu hafi borgin ákveðið að lækka nýbyggingar á lóðinni meðþví að grafa þær meira niður en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta kalli á aukna jarðvegsvinnu en alls verða um 10 þúsund rúmmetrar af jarðvegi fluttir af byggingasvæðinu. Við höfum þegar gengið frá útboðsgögnum og verkteikningar eru í vinnslu. Byggingaframkvæmdin er í útboðsferli en til að flýta fyrir var jarðvegsvinnan boðin út sérstaklega. Í kjölfar jarðvegsútboðsins er Suðurverk nú komið á fulla ferð við að undirbúa byggingarsvæðið,“ segir Símon.