21. desember 2021
KCAP teymið, þar á meðal VSÓ, með sigurtillögu í alþjóðlegri samkeppni KADECO
KCAP teymið, þar á meðal VSÓ Ráðgjöf, bar sigur úr býtum í alþjóðlegri samkeppni um þróunaráætlun fyrir svæðið umhverfis Keflavíkurflugvöll. Anouk Kuitenbrouwer, arkitekt og verkefnisstjóri hjá KCAP, líkir þróunaráætluninni við íslenska geimferðaáætlun – en tillögurnar séu engu að síður varfærnar og raunsæjar. Alls sóttust 25 fyrirtæki víða að úr heiminum eftir að taka þátt í samkeppninni. Þrjú voru svo valin til að skila mótuðum tillögum byggðum á efnahagslegri greiningu. Ekki var um hefðbundna hönnunarsamkeppni að ræða heldur var einnig óskað eftir atvinnuþróunar- og fjárfestingaráætlun sem héldist í hendur við hönnunina.
Í sigurtillögunni lagði KCAP teymið til samþætta framtíðarsýn, sem tengir metnaðarfulla þróunarhugmynd við sjálfbæra borgarhönnun, landslagseinkenni og framtíðar samgöngulausnir. Í teyminu er þverfaglegur hópur sérfræðinga. Auk KCAP eru fyrirtækin WSP, Felixx, MIC Mobility in Chain, VSÓ Ráðgjöf, Buck Consultants International, Buro Happold, Base Design, Maurits Schaafsma, Amberg Loglay og Kanon Arkitektar. VSÓ ber m.a. ábyrgð á skipulagsgerð, samráði og er tengiliður teymisins við Ísland. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, stóð fyrir samkeppninni.
Hlekk á vinningstillögu KCAP teymisins má finna hér fyrir neðan, sem og fréttatilkynningu KADECO um niðurstöður samkeppninnar.