3. maí 2016
Ný íþróttamiðstöð Golfklúbbbs Kópavogs og Garðabæjar
Ný íþróttamiðstöð Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG) var opnuð með formlegum hætti í apríl. á svæði golfklúbbsins við Vífilstaðaveg. Íþróttamiðstöðin er 1400 fermetrar að stærð og hófust framkvæmdir við byggingu hennar fyrir rúmu ári síðan.
Á efri hæð byggingarinnar er glæsilegur veitingasalur fyrir allt að 170 manns, skrifstofur starfsmanna, verslun og móttaka en á neðri hæðinni er fullkomin æfinga- og kennsluaðstaða þar sem m.a. er að finna búningsaðstöðu, golfherma af fullkomnustu gerð, stóra púttflöt og aðstöðu fyrir aðrar æfingar sem tengjast golfíþróttinni.
Haldin var glæsileg hátíð í tilefni opnunarinnar þar sem margir tóku til máls og mikið fjölmenni var mætt til að skoða nýju bygginguna. Var á þeim að heyra að ný viðmið hefðu með þessu verið sett í aðstöðu fyrir golfklúbba á landinu og spennandi tímar væru frammundan hjá GKG.
Byggingarverktakinn GG Verk sá um framkvæmdirnar og stóðust allar áætlanir sem settar voru upp hvað varðar tíma og fjármagn. Byggingarstjórn og framkvæmdaeftirlit var í höndum VSÓ Ráðgjafar.