Græna leiðin

Með aukinni umhverfisvitund aukast kröfur um sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Brýn nauðsyn er að draga úr umhverfisáhrifum, minnka losun gróðurhúsalofttegunda og beita aðlögunaraðgerðum í baráttunni við loftslagsvá.

VSÓ Ráðgjöf styður fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir á grænni leið að kolefnishlutleysi og sjálfbæru samfélagi með því að veita ráðgjöf á sviði umhverfismála, skipulags og mannvirkjagerðar. Hjá VSÓ starfar fólk með fjölbreytta reynslu og þekkingu á breiðu sviði sem myndar sterkt teymi við úrlausn verkefna.

Með sjálfbærni að leiðarljósi

VSÓ Ráðgjöf býður vistvænar og hagkvæmar lausnir sem stuðla að framförum og sjálfbærri þróun. Áhersla er lögð á alla þrjá þætti sjálfbærni í verkefnum; umhverfi, samfélag og efnahag. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru mikilvægur vegvísir ríkja og fyrirtækja í átt að aukinni sjálfbærni en samkeppnishæfni þeirra veltur í vaxandi mæli á því hversu sjálfbær og samfélagslega ábyrg þau eru. Markmiðið er minni kolefnislosun, bætt auðlindanýting, minni úrgangsmyndun, betri heilsa og  aukin velferð.

Umhverfi-Samfélag-Efnahagur

Í Grænu leiðinni felst m.a.:

  • Mótun sjálfbærnistefnu og markmiðssetning út frá viðurkenndum viðmiðum og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
  • Draga fram vistvænar áherslur í áætlunum og umhverfismati.
  • Vinna staðarvalsgreiningar sem stuðla að auknu visthæfi byggðar.
  • Framkvæma umhverfisvottanir til að sýna fram á að kröfur um sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa séu uppfylltar.
  • Gera lífsferilsgreiningar sem auðvelda val á vistvænum byggingarefnum.
  • Gera orkuútreikninga fyrir byggingar á hönnunarstigi.
  • Greina kolefnisspor og benda á leiðir til að draga úr því.
  • Beita markvissri úrgangsstjórnun sem stuðlar minni sóun og hámörkun verðmæta.
  • Greina loftslagsáhættu og benda á leiðir til að bregðast við og minnka hana.
  • Hanna skipulag og mannvirki út frá hugmyndafræði sjálfbærni og hringrásarhugsun.
  • Reikna líftímakostnað mannvirkja sem gefur heildstæða mynd af kostnaði „frá vöggu til grafar“.

Í átt að hringrásarhagkerfi

Í hringrásarhagkerfi er leitast við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi og viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Þannig mynda vöruhönnun, framleiðsla, dreifing, neysla og meðhöndlun úrgangs því sem næst lokaða auðlindahringrás.

Helstu aðgerðir sem tryggja að auðlindum sé haldið í hagkerfinu eru að deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna. Markmiðið er að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur. Ávinningurinn er margþættur:

  • Hagræn áhrif, aukin verðmæti.
  • Loftslagsáhrif.
  • Nýsköpun og ný störf.

Mikil tækifæri eru í að innleiða hringrásarhagkerfið í byggingariðnaði eins og kemur fram í skýrslunni Kortlagning og leiðbeiningar um nýtingarmöguleika byggingarúrgangs, sem VSÓ vann fyrir Grænni byggð. Mikilvægt er að huga að því strax við hönnun bygginga að auðvelt sé að taka þær í sundur og endurnota byggingarefni, flokka allan úrgang, endurvinna hreina úrgangsstrauma s.s. málma og endurnýta eins mikið og hægt er, auk þess að stunda forvarnir svo koma megi í veg fyrir úrgangsmyndun.

Viltu vita meira? Hafðu samband – við erum til þjónustu reiðubúin.


Nánari upplýsingar veitir:

Guðný Káradóttir
Teymisstjóri – Græna leiðin
gudny@vso.is
s: 585 9138

Graena-leidin
Endurnýjanlegir orkugjafar Blágrænar ofanvatnslausnir Vistvænar byggingar Þétting byggðar Rafbíll Strætó Plast Hjólreiðar Sementsframleiðsla Endurnýjanleg orka Vistvænar ofanvatnslausnir Umhverfisvottaðar byggingar Þétting byggðar Orkuskipti í samgöngum Almenningssamgöngur Úrgangsstjórnun Gangandi og hjólandi umferð í forgang Timbur Draga úr úrgangi og losun gróðurhúsalofttegunda Gluggar og einangrun

Endurnýjanlegir orkugjafar

Endurnýjanlegir orkugjafar eru t.d. vatnsorka, jarðvarmi, sólarorka og vindorka.

Blágrænar ofanvatnslausnir

Með vistvænum blágrænum ofanvatnslausnum geta lofslagsáhrif hverfis minnkað um 20%. Blágrænar ofanvatnslausnir draga úr áhrifum þéttbýlis á náttúrulega hringrás vatns, hreinsa fráveituvatn og draga úr hættu á flóðum.

Vistvænar byggingar

Vistænar byggingar nota minni orku, minna vatn og minna af náttúrulegum auðlindum.  Þær hafa í för með sér minni úrgang og sóun auk þess að í þeim er heilbrigðara að búa en öðrum byggingum.

Þétting byggðar

Með þéttingu byggðar skapast fleiri tækifæri til að búa miðsvæðis og nær vinnustað auk þess sem ferðatími fótgangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum styttist.  Þéttari byggð bætir einnig skilyrði fyrir fjölbreytt framboð af nærþjónustu.

Rafbíll

Rafbíll er með 60% lægra kolefnisspor yfir líftíma en bíll sem knúinn er með jarðefnaeldsneyti.

Strætó

Með því að nota strætó í stað einkabílsins daglega er hægt að spara 2.200 kg af kolefnislosun á mann m.v. 30 km daglega akstursvegalengd

Plast

Það tekur að meðaltali um 450 ár fyrir plastumbúðir að eyðast upp í náttúrunni. Á Íslandi er magn umbúðaplastúrgangs um 40 kg á hvern í búa á hverju ári eða alls um 13.000 tonn á ári.

Hjólreiðar

Reglulegar hjólreiðar geta gefið þér líkamshreysti á við þá sem eru 10 árum yngri. Rannsóknir hafa sýnt að reglulegar hjólreiðar eru ein árangursríkasta leiðin til að lengja lífið, jafnvel á við fólk sem stundar aðra hreyfingu.

Sementsframleiðsla

Framleiðsla á einu kílói af sementsgjalli losar u.þ.b. eitt kíló af kolefni.  Um 8% af allri kolefnislosun heims er rakin til sements. Ef sement væri land þá væri það í þriðja sæti yfir lönd sem losa mest kolefni, á eftir Kína og Bandaríkjunum.

Endurnýjanleg orka

Endurnýjanleg orka kemur frá orkulind sem minnkar ekki heldur endurnýjar sig stöðugt þegar tekið er af henni og helst þannig í jafnvægi.

Vistvænar ofanvatnslausnir

Með notkun vistvænna blágrænna ofanvatnslausna er ofanvatninu veitt niður í jarðveginn um gegndræp yfirborð t.d. í regnbeð eða á græn svæði. Jarðvegurinn og gróðurinn hreinsar ofanvatnið af óhreinindum og annarri mengun.

Umhverfisvottaðar byggingar

Umhverfisvottun bygginga er ætlað greina og draga úr umhverfisáhrifum bygginga allt frá hönnun og uppbyggingu til rekstar.  BREEAM  er í dag algengasta vistvottunarkerfi bygginga í heiminum.

Þétting byggðar

Þétting byggðar nýtir betur þá grunnþjónustu sem þegar er til staðar í hverfum s.s. skóla, verslanir, heilsugæslu, gatnakerfi og lagnir.

Orkuskipti í samgöngum

Undir orkuskipti í samgöngum falla aðgerðir til að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á Íslandi og draga með því úr losun gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum og skilvirkum hætti.

Almenningssamgöngur

Almenningssamgöngur eru ferðamáti sem ætlaður er almenningi s.s. áætlunarbifreiðar, lestarþjónustur og ferjur. Öflugar almenningssamgöngur eru forsenda þess að hægt sé að draga úr notkun einkabílsins og þétta byggð.

Úrgangsstjórnun

Skilvirk úrgangsstjórnun miðar að því að draga úr úrgangi en einnig að meðhöndlun hans sé slík að ekki skapist hætta fyrir velferð manna, dýra og umhverfis. Í úrgangsstjórnun felst m.a. skipulagning úrgangs m.t.t. endurvinnslu, endurnýtingar, mengunar og förgunar.

Gangandi og hjólandi umferð í forgang

Forgangur gangandi og hjólandi umferðar felur m.a. í sér aukna áherslu á öruggar og hentugar hjóla- og gönguleiðir í þéttbýlisumhverfinu.

Timbur

Með því að skipta yfir í timbur í stað steinsteypts burðarvirkis má draga úr kolefnisspori bygginga um 30-60%

Draga úr úrgangi og losun gróðurhúsalofttegunda

Stærstan hluta úrgangs hér á landi má rekja til byggingarframkvæmda og heimilissorps. Draga þarf úr myndun úrgangs eins og kostur er með endurvinnslu, endurnýtingu og ekki síst minni neyslu en aukin neysla þýðir jafnan að meira er losað af gróðurhúsalofttegundum.

Gluggar og einangrun

Með því að velja einangrandi glugga og bæta við einangrun á veggjum er hægt að draga úr orkunotkun bygginga um 20%