17. maí 2016
Yfirvofandi hækkun sjávar ekki tekin nógu alvarlega
Þrátt fyrir að þekking á mögulegum sjávarflóðum vegna loftlagsbreytinga hafi legið lengi fyrir og að Skipulag ríkisins hafi á árunum 1992 og 1995 gefið út reglur um skipulag byggðar á lágsvæðum þar sem hætta er á flóðum, hefur þessi vá ekki hlotið nægilega athygli og misbrestur er á að reglurnar hafi verið hafðar til hliðsjónar við skipulagsgerð. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu VSÓ Ráðgjafar „Hækkuð sjávarstaða á höfuðborgarsvæðinu. Áhrif og aðgerðir.“
Skýrslan er unnin með styrk úr rannsóknar- og þróunarsjóði Skipulagsstofnunar og eru skýrsluhöfundar sérfræðingar hjá VSÓ Ráðgjöf, þau Auður Magnúsdóttir, Grétar Mar Hreggviðsson og Kristín Þrastardóttir. Tilgangur verkefnisins var að greina áhrif hækkaðrar sjávarstöðu af völdum loftlagsbreytinga á byggð á höfuðborgarsvæðinu þannig að draga megi lærdóm af sem nýtist til framtíðarskipulagningar svæðisins. Meðal markmiða skýrslunnar var að kanna hvort farið hafi verið eftir áður nefndum skipulags- og byggingarreglum Skipulags ríkisins. Í skýrslunni er einnig farið yfir ábyrgð sveitarfélaga og ríkis á fyrirbyggjandi aðgerðum vegna hækkunar sjávarborðs af völdum loftlagsbreytinga.
Fjögurra metra sjávarflóð
Auður segir að í skýrslunni sé miðað við sömu forsendur og Vísindanefnd um loftlagsbreytingar studdist við í sinni skýrslu árið 2008 sem er að hækkun sjávar vegna hlýnunar geti orðið 0,4 til 0,6 metrar fram til ársins 2100. Hún segir að þeir þættir sem ráði mestu um sjávarstöðu á hverjum tíma séu gangur himintungla og veðurfarsþættir eins og loftþrýstingur, vindáhlaðandi og ölduáhlaðandi. Í þessari rannsókn sé miðað við 4 m hækkun sjávar samkvæmt hæðakerfi Reykjavíkurborgar. „Við fengum hæðarlínur frá sveitarfélögunum á svæðinu og miðað við þær stilltum við upp hugsanlegum áhrifum af 4 metra flóði, hve hátt upp í landið myndi það ná og hvaða byggð yrði fyrir áhrifum,“ segir Kristín. Hún segir að greining þeirra hafi leitt í ljós að ákvæðum skipulagslaga og reglugerða hafi ekki verið vel fylgt eftir þó víða finnist prýðileg dæmi um að tekið hafi verið tillit til hækkunar sjávar í skipulagsáætlun sveitarfélaga.
Auður segir niðurstöður skýrslunnar gefa tilefni til frekari greiningar og að kalla þurfi eftir ákveðnari vinnubrögðum skipulagsyfirvalda um stefnu í landnotkun á þeim svæðum sem kunna að vera í hættu. Ekki voru gerðar tilraunir til að greina afleiðingar sjávarflóða í skýrslu VSÓ Ráðgjafar en Auður segir það gefa auga leið að eignatjón, slysahætta, tafir á umferðarleiðum og skemmdir á innviðum kunni að hljótast af sjávarflóðum þótt það fari eftir ýmsum aðstæðum hversu alvarlegar afleiðingarnar geta orðið. „Greining okkar á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga á fyrirbyggjandi aðgerðum vegna hækkunar sjávar sýnir að ríkið nýtir tækifæri til stefnumörkunar á þessu sviði ekki til fulls og ábyrgðin á aðlögun að þessum breyttu aðstæðum hvílir að mestu á sveitarfélögum,“segir Auður.
Pollur fyrir framan Landsbankann
Grétar Mar hefur skoðað áhrif sjávarhækkunar á fráveitukerfin á höfuðborgarsvæðinu. Hann bendir á að vatnshæð í fráveitukerfinu sé sú sama og sjávarhæðin hverju sinni og því sé sjór í kerfinu langt inn í land. Þegar sjávarborðið hækkar hækki vatnsstaðan í fráveitukerfinu og þá þurfi að dæla meira því annars sé hætt á að það flæði upp úr niðurföllum. „Til marks um að há sjávarstaða er þegar farin að hafa áhrif má nefna að einna lægsti punktur bæjarlandsins er í Kvosinni. Ef það þrennt færi saman að dælustöðin í Ánanaustum bilaði, það væri stórstraumsflóð og lágur loftþrýstingur þá væri hátt í hálfs metra djúpur pollur fyrir framan Landsbankann í Austurstræti. Þetta þrennt hefur sem betur fer aldrei gerst í einu en undirstrikar að við þurfum að viðurkenna að hækkandi sjávarstaða er möguleiki sem þarf að taka alvarlega,“ segir Grétar.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér: Hækkuð sjávarstaða á höfuðborgarsvæðinu – Áhrif og aðgerðir