6. apríl 2016
Mat á umhverfisáhrifum jarðhitavirkjana í Eþíópíu
Sérfræðingar VSÓ eru um þessar mundir að ljúka mati á umhverfisáhrifum 1. áfanga 500 MW jarðhitavirkjunar í Thulu Moye í Eþíópíu fyrir Reykjavík Geothermal (RG). Þetta er seinni 500 MW jarðhitavirkjunin af tveimur sem VSÓ metur fyrir RG. Reykjavík Geothermal gerði fyrir nokkrum árum samning við stjórnvöld í Eþíópíu um að virkja allt að 1000 MW af raforku á Corbetti og Tulu Moye jarðhitasvæðunum í Eþíópíu en þau eru á flekamótum í sigdal sem liggur í norðaustur og suðvestur í miðju landinu. Stjórnvöld hafa lagt fram langtímaáætlun um að auka hagvöxt, framleiðni og tekjur. Mikilvægur þáttur í áætluninni er rafvæðing landsins, sem felst m.a. í að nýta jarðhitaauðlindina. Jafnframt er ætlunin að draga verulega úr útblæstri kolefnislofttegunda á næstu árum og er nýting jarðvarma til raf
orkuframleiðslu veigamikill þáttur í þeirri áætlun.
Að sögn Stefáns Gunnars Thors sviðsstjóra hjá VSÓ er undirbúningur fyrir tilraunaboranir á lokastigi á Corbettisvæðinu. Ef niðurstöður þeirra borana staðfesta tilgátur um getu svæðisins sem byggja á mælingum og fyrri rannsóknum verður hafist handa við vinnsluboranir og byggingu virkjunarinnar. Virkjanirnar verða byggðar í áföngum og er fyrsti áfanginn 100 MW.
Nýta faglega þekkingu og reynslu VSÓ
Stefán Gunnar segir VSÓ hafa unnið með Reykjavík Geothermal um nokkurra ára skeið að verkefnum erlendis. Fyrst í Abu Dhabi í Arabísku furstadæmunum, síðan í Rúanda og loks að þessum tveimur verkefnum í Eþíópíu. „Vinna við mat á umhverfisáhrifum er hluti af kjarnastarfsemi okkar og með erlendum verkefnum nýtum við þá faglegu þekkingu og reynslu sem VSÓ býr yfir og aðlögum hana að alþjóðlegum kröfum,“ segir Stefán Gunnar. Hann segir Afríku verkefnin hafa verið lærdómsríkt og áhugavert ferli þar sem tveir ólíkir menningarheimar mætast og geta lært hvor af öðrum. Hann segir áherslur stjórnvalda í Eþíópíu ólíkar því sem við eigum að venjast hér á landi við undibúning slíkra framkvæmda. Á Íslandi sé lögð mest áherslu á að rannsaka náttúrufarslega þætti en í Eþíópíu skipti samfélagslegir þættir mun meira máli. „Vissulega horfa menn á náttúrufarslega þætti því þarna eru þjóðgarðar og ýmis dýr og plöntur sem eru talin í útrýmingarhættu, en menn leggja hins vegar enn meiri áherslu á að fá upplýsingar um hvort framkvæmdin hafi jákvæð áhrif á lífsskilyrði fólksins sem býr á svæðinu. Þarna er allt land í ríkiseigu en bændurnir sem yrkja það njóta ákveðinnar verndar og ef það er hróflað við þeim þarf að bæta slíkt.“
Alþjóðlegar skuldbindingar
Veigamikill þáttur í umhverfismatinu er að fara yfir lög sem geta komið til álita við framkvæmdina. Auður Magnúsdóttir umhverfisstjórnunarfræðingur segir að ráðgjafar RG í Eþíópíu hafi dregið saman öll lög og reglur sem mögulega komi til greina og síðan hafi þau sigtað út það sem skipti máli fyrir framkvæmdina og bætt við alþjóðlegum skuldbindingum sem verkefnið þurfi að standast til að uppfylla reglur um lánshæfi. „Alþjóðlegu kröfurnar koma meðal annars frá Alþjóðabankanum og erlendum þróunarsjóðum og þar er frumskógur reglna sem menn þurfa að þekkja til að geta sótt um fjármögnun,“ segir Auður. Hún segir að meðal annars þurfi að liggja fyrir afstaða ólíkra samfélagshópa til verkefnisins og þar á meðal kvenna. Það geti hins vegar verið nokkuð snúið í múslimaríki þar sem sýn á réttindi kvenna sé frábrugðin því sem við eigum að venjast. „Þetta er samfélag sem er stjórnað af gömlum körlum sem eru vanir að hafa hlutina eftir eigin höfði. Hér þarf maður því að vera læs á menninguna og stíga varlega til jarðar,“ segir Auður.
Gréta Hlín Sveinsdóttir umhverfisskipulagsfræðingur segir að fyrir liggi ágæt greining á íbúasamsetningu í Tulu Moye og um staðsetningu væntanlegra borana. „Þess vegna höfum við ákveðinn leiðarvísi um hvað þurfi að hafa í huga á hverjum stað þegar kemur að endanlegu vali á staðsetningu.“ Hún segir að til að meta áhrif virkjunarinnar og annað sem máli skipti hafi þau meðal annars stuðst við landupplýsingakerfi og ítarlega kortagrunna frá rannsóknaraðilum. „Með notkun landupplýsingakerfisins ásamt góðum grunnrannsóknum á umhverfi og samfélagi á framkvæmdasvæðinu getum við greint mun betur margvíslega þætti framkvæmdarinnar og möguleg áhrif sem hún kann að hafa í för með sér. Þessar upplýsingar notum við síðan til að upplýsa leyfisveitendur, stjórnvöld, íbúa og framkvæmdaraðila. Með aðkomu þessara aðila getum við stuðlað að betri framkvæmd, aukið jákvæð áhrif og dregið úr neikvæðum áhrifum á umhverfi og samfélag,“ segir Gréta Hlín Sveinsdóttir.