13. desember 2022
Kortlagning og leiðbeiningar um nýtingarmöguleika byggingarúrgangs
Grænni byggð í samstarfi við HMS hefur gefið út skýrsluna Kortlagning og leiðbeiningar um nýtingarmöguleika byggingarúrgangs en hún er unnin af VSÓ Ráðgjöf. Skýrslunni er ætlað að nýtast í að innleiða hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins í byggingariðnaði og er hún unnin með styrk frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Verkefnið afmarkast við byggingar- og niðurrifsúrgang sem fellur til við framkvæmdir, að undanskildum jarðvegi og malbiki, bæði í nýframkvæmdum og niðurrifi. Greiningin leiddi í ljós að mikill munur er á úrgangsmyndun vegna nýbygginga og niðurrifs en stærstu straumar úrgangs voru þeir sömu, steinefni, timbur og málmar. Bæði var um að ræða greiningu á magni og kolefnisspori úrgangsins.
Gögnin náðu yfir tímabilið 2018 til 2022 og sýndu að þar sem áhersla hefur verið lögð á flokkun, fellur mun minna í óflokkaðan úrgang en áður. Greiningin er byggð á raungögnum frá verktökum fyrir nýbyggingarverkefni en gögn fyrir niðurrif eru byggð á magntölum í endurnotkunaráætlunum.
Farvegur úrgangs til að auka verðmæti
Í skýrslunni eru leiðbeiningar um hvernig auka megi endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu í byggingariðnaði með það að markmiði að minnka förgun byggingarefna og viðhalda verðmætum. Fjallað er um farvegi úrgangs til framtíðar og sett fram dæmi og leiðbeiningar fyrir framhaldslíf helstu flokka úrgangs. Til að endurnota byggingarefni á stórum skala þyrfti að koma upp auðlindatorgi.
Einnig þarf að vera hægt að auglýsa fyrirhugað niðurrif bygginga með góðum fyrirvara. Þá er nauðsynlegt að vita efnisinnihald og aðrar tæknilegar upplýsingar um efnin og getur handbók hússins m.a. gengt því hlutverki að halda utan um byggingarefni og magn þeirra, sem og að koma upp svokölluðu efnisvegabréfi (e. Material Passport).
Hugmyndafræði hringrásarhagkerfis í byggingariðnaði
Stefnt er að því að innleiða hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins í byggingariðnaði þannig að verðmæti byggingarefna rýrni sem minnst og komast þannig nær sjálfbæru samfélagi. Í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030, gefinn út af samstarfsverkefninu Byggjum grænni framtíð, er sett markmið um að draga úr magni byggingar- og niðurrifsúrgangs á hvern byggðan fermetra um 30%. Ein af þeim aðgerðum sem hefur verið sett til að ná þessu markmiði er aðgerð 4.2. Kortleggja og gera leiðbeiningar um nýtingarmöguleika mismunandi byggingarúrgangs.
Kortlagning og leiðbeiningar um nýtingarmöguleika byggingarúrgangs – Skýrsla