28. febrúar 2023
Landeldi með áherslu á sjálfbærni og hringrásarhagkerfi
Eftirfarandi grein birtist í febrúarútgáfu Sóknarfæra 2023.
Kröfur um sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa fara sífellt vaxandi. VSÓ Ráðgjöf er alhliða ráðgjafa- og verkfræðistofa sem leggur áherslu á að mæta slíkum kröfum með ráðgjöf og hönnun þar sem sjálfbærni og hugmyndafræði hringrásarhagskerfisins er höfð að leiðarljósi. Hjá fyrirtækinu starfar samhentur hópur sérfræðinga með fjölbreytta þekkingu og menntun og byggir víðtæk reynsla starfsfólks VSÓ á þeim fjölbreyttu verkefnum sem fyrirtækið hefur unnið að hér á landi og erlendis. VSÓ Ráðgjöf byggir því á traustum grunni en það var stofnað árið 1958 og er með skrifstofur á Íslandi og í Noregi.
Síðustu ár hafa umsvif VSÓ aukist um leið og þjónustan hefur orðið víðtækari. Áhersla er lögð á að veita trausta og faglega þjónustu á sviði umhverfismála, skipulags og mannvirkjagerðar. VSÓ hefur víðtæka reynslu af ráðgjöf á sviði gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunar og starfar samkvæmt vottuðum gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfum.
Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og hringrásarhagkerfisins er höfð að leiðarljósi í rekstri og ráðgjöf og lögð er áhersla á að styðja við vegferð fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana að kolefnishlutleysi og sjálfbæru samfélagi. Markmiðið er að koma með hagkvæmar lausnir sem draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, hámarka auðlindanýtingu, draga úr kolefnisspori og úrgangsmyndun og stuðla að öryggi og vellíðan.
Umfangsmikil verkefni í landeldissuppbyggingu
VSÓ hefur komið að verkefnum við uppbyggingu á landeldi hér á landi með ýmsum hætti, allt frá mati á umhverfisáhrifum yfir í hönnun á mannvirkjum. Þau Erla Björg Aðalsteinsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur og Hlynur Torfi Torfason, skipulagsfræðingur, hafa unnið að nokkrum slíkum verkefnum, bæði við mat á umhverfisáhrifum og deiliskipulag vegna landeldis. Þau segja verkefnin umfangsmikil og að þau reyni á þekkingu á breiðu sviði.
Erla segir að stór þáttur í mati á umhverfisáhrifum sé verkefnisstjórn og að nauðsynlegt sé að þekkja allt ferlið. „Matsvinna getur tekið langan tíma og snýr að mörgum þáttum. Því er mikilvægt að nálgast verkefnin á kerfisbundinn og markvissan hátt.“ Hún segir einnig að mikilvægt sé að framkvæmdaraðili taki virkan þátt í matsferlinu.
Eldisstöðvarnar lagaðar að landslagi og umhverfi
Landeldisstöðvar nýta auðlindir úr nærumhverfinu og geta verið umfangsmiklar í landslaginu. Skoða þarf hvort rask verði á einhverju sem hefur verndargildi, t.d. fornleifum, eldhrauni eða vistkerfum. „Umhverfismatið getur verið nýtt til að draga fram þessi svæði og skoða hvort hægt sé að aðlaga hönnunina á eldisstöðinni svo hún falli sem best að landslagi eða hlífi viðkvæmum svæðum,“ segir Erla.
„Í allri okkar vinnu er lögð mikil áhersla á að leita þverfaglegrar þekkingar og samráðs. Góð og sterk tengsl við sérfræðinga og umsagnaraðila sem koma að mati á umhverfisáhrifum eru afar mikilvæg sem og við aðra hagsmunaaðila. Vægi samráðs í matsvinnunni hefur aukist á síðustu árum,“ segir Erla.
Umhverfismatið fer í gegnum formlegt ferli og í kynningu á vinnslutímanum. Í því ferli hefur VSÓ lagt áherslu á að nýta landupplýsingakerfi til að veita betri yfirsýn yfir verkefni og sveigjanleika í birtingu upplýsinga um einstaka matsþætti.
Vönduð deiliskipulagsvinna er lykilatriði
VSÓ hefur unnið að gerð fjölda svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana og eru skipulagsmál víðtækur málaflokkur sem snertir á einn eða annan hátt flest það sem myndar hið byggða umhverfi sem við búum í. Hlynur segir vandaða skipulagsvinnu fela í sér þverfaglega yfirsýn og getu til að fást við heildarmyndina og smærri einingar hennar á sama tíma.
„Í deiliskipulagi þarf að byggja á sem bestum gögnum um skipulagssvæði, nýtingarmöguleika þess og líkleg umhverfisáhrif uppbyggingar,“ segir Hlynur en í landeldisverkefnum segir hann deiliskipulag oft gert samhliða mati á umhverfisáhrifum. „Þá samnýtast upplýsingar, rannsóknir og gögn um umhverfisþætti í skipulagsvinnunni og setja fram viðeigandi skilyrði í deiliskipulag. Við deiliskipulag landeldis þarf að setja fram skýran skipulagsramma um umfang og áfangaskiptingu uppbyggingar, auðlindanýtingu, meðhöndlun úrgangs og aðrar mikilvægar forsendur. En jafnframt þarf deiliskipulag að hafa svigrúmi til mismunandi hönnunar og útfærslu eldistöðvar, án þess að það kalli á skipulagsbreytingar,“ segir Hlynur. Hann segir að kröfur um efni og framsetningu deiliskipulags og málsmeðferð séu nokkuð miklar og formfastar en innan fyrirtækisins sé mikil þekking á öllu því sem framkvæma þarf.
Þekkingargrunnur sem nýtist framkvæmdaraðilum
Með þverfaglegu teymi hefur VSÓ innleitt ýmsar nýjungar í skipulagsvinnu s.s. landgreiningu, kostnaðarmat á framkvæmd skipulags, verndaráætlanir, BREEAM vottun skipulags og fleira. Í teymi VSÓ eru m.a. skipulagsfræðingar, jarðfræðingar, sérfræðingar í frárennslis- og veitumálum, landslagsarkitektar, hagfræðingar og umhverfis- og byggingarverkfræðingar.
Það eru sveitarfélögin sem annast gerð deiliskipulagsáætlana og fjalla um leyfisumsóknir og veita framkvæmdaleyfi. „Við höfum góða þekkingu á málsmeðferð og stjórnsýslunni og getum því leiðbeint framkvæmdaraðila varðandi allt ferlið sem þarf að fara í gegnum í landeldi eða sambærilegum framkvæmdum,“ segir Hlynur.
Þegar skipulagsvinnu og mati á umhverfisáhrifum lýkur er komið að hönnun mannvirkjanna en það er stór þáttur í þjónustu VSÓ Ráðgjafar, svo sem hönnun á burðarvirki og tæknikerfum, orkuútreikningar bygginga, verkstjórn og framkvæmdaeftirlit.