Lífsferilsgreining – LCA og líftímakostnaðargreining LCC
Lífsferilsgreining – LCA
Lífsferilsgreining (e. Life Cycle Assessment, LCA), sem einnig hefur verið kölluð lífsferilsmat eða vistferilsgreining, er framkvæmda eftir staðlaðri aðferðafræði til að meta heildstæð umhverfisáhrif vöru eða þjónustu (staðbundin og hnattræn) yfir allan líftímann. Lífsferill er ferill vöru eða þjónustu frá vöggu til grafar, svo sem hönnun, hráefnaval, framleiðsla, dreifing, notkun, endurnýting og förgun.
Lífsferilsgreining veitir möguleika á að skoða lausnir til að draga úr kolefnisspori. Hægt er að benda á þá þætti á lífsferli vöru, byggingar eða þjónustu sem valda mestum áhrifum á umhverfið og þar af leiðandi ráðast í aðgerðir til þess að minnka þau áhrif.
Lífsferilsgreiningar á byggingum hluti af byggingarreglugerð
Frá og með 1. september 2025 verður gerð krafa um gerð lífsferilsgreininga fyrir öll ný byggingarleyfisskyld mannvirki í umfangsflokkum 2 og 3, sbr. 1.3.2. gr. í byggingarreglugerð. Aðlögunartímabil hófst í mars 2024 og hefur HMS opnað skilagátt LCA og gefið út leiðbeiningar um gerð þeirra.
Af hverju ætti að framkvæma lífsferilsgreiningu?
- Til að besta efnaval, efnanýtingu o.s.frv. svo finna megi hagkvæmustu og um leið umhverfisvænustu lausnina fyrir hvert verkefni.
- Það er samfélagslega ábyrgt að lágmarka kolefnisspor.
- Framkvæmd lífsferilsgreininga mannvirkja gefur stig í umhverfisvottunum.
Til þess að lágmarka kolefnislosun bygginga er gagnlegt að framkvæma lífsferilsgreiningu á hönnunarstigi. Þannig má kortleggja kolefnislosun við hönnun, uppbyggingu, afnot, viðhald og niðurrif byggingar og greina hvar er hægt að grípa inn í með bættri hönnun eða aðgerðum á byggingarstað.
Setja má skýr markmið strax í upphafi hönnunarferils til að lágmarka innbyggt kolefnisspor og kolefnislosun vegna rekstrar. Innbyggt kolefnisspor á við bygginguna sjálfa, öflun hráefna, framleiðslu, flutning, byggingartíma, niðurrif, förgun úrgangs og endurvinnslu. Kolefnislosun á rekstrartíma er losun á líftíma byggingar, t.d. losun vegna loftræsingar, rafmagnsnotkunar og viðhalds.
Líftímakostnaðargreining (e. Life Cycle Cost, LCC) er oft framkvæmd samhliða gerð lífsferilsgreiningar.
Líftímakostnaðagreining – LCC
Líftímakostnaðargreining (e. Life Cycle Cost, LCC) felur í sér greiningu á kostnaði yfir allan líftíma mannvirkis að meðtöldum t.d. rekstrarkostnaði og viðhaldi. Aðferðin við gerð LCC var stöðluð hérlendis árið 2010.
Með LCC greiningu er hægt að lágmarka kostnað yfir líftíma mannvirkja, þá sérstaklega ef horft er til rekstrarkostnaðar sem oft er vanmetinn. Líftímakostnaðargreining er gerð til að meta ólíka fjárfestingarkosti með því að greina kostnað og sparnað sem hver valkostur felur í sér. Hægt er að spara á ýmsum sviðum, s.s. í upphafskostnaði, orkunotkun eða viðhaldi.
Ávinningur af gerð líftímakostnaðargreininga getur m.a. verið:
- Aukið langtíma virði.
- Gefur stig ú umhverfisvottun.
- Áreiðanlegri áætlunargerð.
- Áhættustýring – minni áhætta.
Ávinningur líftímakostnaðargreininga (LCC) samhliða gerð lífsferilsgreininga (LCA) kemur vel í ljós fyrir nýbyggingar þar sem hægt er að takmarka umhverfisáhrif strax við upphaf hönnunar. Með því að auka orku- og auðlindanýtingu byggingar yfir líftíma og velja endingarbetri og slitsterkari byggingarefni er bæði dregið úr umhverfisáhrifum sem og rekstrarkostnaði.
Nánari upplýsingar veita:
Guðný Káradóttir
Teymisstjóri – Græna leiðin
gudny@vso.is
s: 585 9138
Kristinn Alexandersson
Sviðsstjóri verkefnastjórnunar
Byggingartæknifræðingur B.Sc.
kiddia@vso.is
s: 585 9127