26. nóvember 2015
Ný menningarmiðja í Úlfarsárdal
VSÓ Ráðgjöf hefur samið við Reykjavíkurborg um verkhönnun á fyrstu tveimur áföngum nýrrar menningarmiðju sem mun rísa við Úlfarsá og á að þjóna bæði Grafarholti og Úlfarsárdal. Heildarstærð mannvirkja sem rísa á svæðinu verður um 16.000 fermetrar og þar verða leikskóli, grunnskóli, frístunda- og menningarmiðstöð, almenningsbókasafn, sundlaug og íþróttahús. Heildarkostnaður Reykjavíkurborgar við menningarmiðjuna er í dag áætlaður um 4,5 milljarðar og er þetta eitt stærsta verkefni sem borgin hefur ráðist í á síðari árum. Stefnt er að því að byggingu menningarmiðju Úlfarsárdals og Grafarvogs verði að fullu lokið 2022.
Samþættur leikskóli og grunnskóli
Í fyrstu tveimur áföngunum sem VSÓ sér um verkfræðilega hönnun á eru samþættur leikskóli og grunnskóli með aðstöðu fyrir frístunda- og félagsstarf. Þetta er jafnframt vestasti hluti byggingarklasans. Efnt var til samkeppni um útlit og skipulag menningarmiðjunnar og báru VA arkitektar sigur úr býtum í henni. Fyrsta skóflustunga að leikskólanum var tekin í sumar og eru framkvæmdir þegar hafnar en leikskólinn verður alls 820 fermetrar að stærð.
Aðalsteinn Sigurþórsson byggingaverkfræðingur stjórnar vinnu VSÓ við þetta verkefni. Hann segir fullnaðar verkhönnun leikskólans á lokastigi og að vinna við innri frágang byggingarinnar verði væntanlega boðin út í byrjun desember en leikskólinn á að vera tilbúinn haustið 2016. Grunnskólinn sem mun rísa í beinu framhaldi verður í góðum tengslum við íbúabyggð Úlfarsárdals og núverandi byggingu Dalskóla. Grunnskólinn verður alls um 5800 fermetrar að stærð og verður byggingu hans skipt upp í tvo verkáfanga. Fyrri áfanga á að ljúka sumarið 2017 og stefnt er að því að grunnskólinn verði fullbyggður sumarið 2019. Fjórir til sex starfsmenn VSÓ munu að sögn Aðalsteins koma að þessu verkefni á hönnunartímanum. Hann segir staðsetningu bygginganna í næsta nágrenni við Úlfarsár gera miklar kröfur til hönnuða og byggingaraðila um frágang frárennslismála og um umgengni á byggingarstað. Úlfarsá eða Korpa eins og hún er oft nefnd er ágæt laxveiðá og er árleg veiði í henni 200 til 400 laxar.