12. febrúar 2016

Mikilvægt að fylgja reglum við niðurrif og förgun byggingarefna

Ég tel okkur geta lært talsvert af Norðmönnum þegar kemur að förgun byggingarefna sem falla til við niðurrif gamalla bygginga. Þar eru allir verkferlar mjög skýrir og góðar leiðbeiningar um hvernig eigi að fylgja þeim,“ segir Henning Ejerskov Sørensen sérfræðingur VSÓ Ráðgjafar í umhverfis- og öryggismálum.  Henning hefur undanfarin misseri tengst ýmsum verkefnum VSÓ í Noregi og segir fyrirtækið búa yfir góðri reynslu í þessum efnum sem menn vilji gjarnan nýta og miðla af hér heima. Hann segir mikilvægt að tryggja rétta meðhöndlun úrgangs við niðurrif gamalla bygginga.  Almennan úrgang þurfi að flokka eins ítarlega og hægt er til að endurvinna og endurnýta hann sem mest. Í gömlum byggingum geti verið mikið af hættulegum úrgangi, sem skapi vanda fyrir verktaka sem vinna að niðurrifi og förgun úrgangs. Einnig geti það valdið umhverfisvandarmálum ef ekki er staðið rétt að förgun og hættulegum efnum til dæmis blandað  saman við almennan úrgang.

Leiðbeiningar vantar

Eins og í Noregi kveður byggingarreglugerð hér á landi á um að framkvæmdaraðila beri að skila inn áætlun um meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs áður en hafist er handa við niðurrif eða umfangsmiklar breytingar. Þetta á við ef flöturinn sem á að rífa er meira en 100 fermetrar eða ef búast má við að úrgangur verði 10 tonn eða meira. Þótt íslenska byggingarreglugerðin sé í grunninn áþekk þeirri norsku, segir Henning Norðmenn komna mun lengra og hafi meðal annars gefið út leiðbeiningar og útfært verkferla sem snúa að förgun byggingarefna. Að sögn Hennings vantar slíkar leiðbeiningar hér á landi.  „Reyndar stendur í íslensku reglugerðinni sem er frá 2012 að Mannvirkjastofnun skuli  gefa út leiðbeiningar um gerð slíkrar áætlunar að höfðu samráði við Umhverfisstofnun en einhverra hluta vegna hefur það ekki komist í verk ennþá,“ segir Henning.

Rekjanlegt ferli

Að sögn Hennings er mikilvægt að fylgja nákvæmu og rekjanlegu ferli við niðurrif og förgun byggingarefna til að tryggja að niðurrifsúrgangur sé meðhöndlaður rétt. Hann segir regluverkið og umgjörðina utan um þetta ferli að miklu leyti fyrir hendi hér á landi en hins vegar þurfi að tryggja að reglunum sé fylgt.  „Í Noregi þarf að skila byggingarfulltrúa áætlun um meðhöndlun úrgangsefna og til að geta gert það þarf að meta magn almenns úrgangs og kortleggja hvar og hvernig hættuleg efni liggja í byggingunni. Fyrst þarf að fjarlægja hættuleg efni úr byggingunni, en síðan er hægt að fjarlægja allt annað sem þarf að rífa.  Þegar efnin hafa verið afhent til förgunar þarf að skila lokaskýrslu til byggingarfulltrúa sem sýnir að rétt hafi verið staðið að niðurrifi og förgun. Skýrslunni þarf  að fylgja kvittun frá móttökuaðila sem staðfestir að öllum efnum hafi verið fargað með viðurkenndum hætti.“

 

 

Asbest og PCB algengust

Henning segir að af hættulegum efnum séu Asbest og PCB einna algengust.  Asbest var mikið notað í byggingar hér á landi fram til ársins 1970 en um miðjan níunda áratuginn voru settar reglur sem takmörkuðu notkun efnisins og hún var loks bönnuð hér á landi árið 2005.  Hann segir að asbest hafi verið notað mjög víða í byggingar enda sé efnið eldtefjandi, endist vel og hafi á sínum tíma verið mjög ódýrt.  Í dag segir hann asbest aðallega að finna í þökum og tækniherbergjum og sem einangrun í flóttaleiðum bygginga. Það geti verið erfitt að finna efnið því það sé ekki alltaf sýnilegt.  Í flóttaleiðum sé það til dæmis oftast falið á bakvið aðrar klæðningar. Þess vegna þurfi fagmenn að yfirfara byggingar sem á að rífa til að finna þessi efni.   Henning segir að víða erlendis séu fyrirtæki sem sérhæfi sig í að fjarlægja hættuleg efni úr byggingum.  Sú þróun eigi sjálfsagt eftir að ná hingað fyrr en seinna og þá sé mikilvægt að til staðar séu eftirlitsaðilar sem tryggi að reglum um niðurrif og förgun sé fylgt.