2. nóvember 2015
Nýtt hjúkrunarheimili byggt í Hamar í Noregi
Framkvæmdum við nýtt 5000 fermetra hjúkrunarheimili í Hamar í Noregi miðar vel en öll verkfræðileg hönnun og verkefnisstjórn er í höndum VSÓ Ráðgjafar. Verkefnisstjóri er Runólfur Þór Ástþórsson sem starfar hjá dótturfyrirtækinu VSO Consulting AS í Noregi.
Að sögn Runólfs hófst aðkoma fyrirtækisins strax við val á staðsetningu byggingarinnar en stefnt er að því að hjúkrunarheimilið, sem ber heitið Finsalhagen Omsorgssenter, verði tilbúið til notkunar þann 1. desember næstkomandi.
Í nýja hjúkrunarheimilinu verða 24 sjúkraíbúðir auk 14 rýma í lokaðri deild, sem ætluð er sjúklingum fólki með alvarlega hreyfihömlun eða minnisglöp. „Við alla hönnun hjúkrunarheimilisins þarf í raun að hugsa fyrir mörgum þeim þáttum sem eiga við á sjúkrahúsi því að mörgu leyti svipar starfseminni saman,“ segir Runólfur.
Horft til jarðskjálftahættu
Hann segir einnig að við hönnun byggingarinnar hafi verið horft til hugsanlegrar jarðskjálftahættu en Norðmenn tóku um það pólitíska ákvörðun árið 2010 að innleiða Evrópustaðla um burðarþol bygginga á jarðskjálftasvæðum þótt engin dæmi séu um tjón á byggingum af þeim völdum þar í landi. „Þarna kom reynsla okkar í góðar þarfir því við erum alvanir burðarþolshönnun mannvirkja sem standast þurfa ítrustu kröfur hvað jarðskjálfta áhrærir. Þetta var því ekki ný áskorun fyrir okkur að því leytinu til en reyndi e.t.v. frekar á þanþol verktakans,“ segir Runólfur.
Fleiri járn í eldinum
Finsalhagen Omsorgssenter er aðeins eitt þeirra verkefna sem fyrirtækið vinnur að í Noregi um þessar mundir. Stutt er síðan tekinn var í notkun nýr og glæsilegur frjálsíþróttavöllur í Hamar, sem hannaður var af VSÓ Ráðgjöf en í gildi er rammasamningur um verkfræðiþjónustu á milli fyrirtækisins og bæjaryfirvalda í Hamar sem gerður var árið 2011. Einnig stendur yfir undirbúningur nýs skóla og íþróttahúss í Brevik eftir verkfræðihönnun fyrirtækisins og þá er ónefnt menningar- og tónlistarhús í Dröbakk en áformað er að það hús verði tekið í notkun fyrir lok ársins. Öll verkfræðihönnun er unnin af VSÓ Ráðgjöf.