8. maí 2020
Orkureitur
Á horni Grensásvegar og Suðurlandsbrautar er stór lóð þar sem Rafmagnsveitur Reykjavíkur byggðu höfuðstöðvar sínar á áttunda áratug síðustu aldar. Eftir að Rafmagnsveitan var sameinuð Hitaveitu Reykjavíkur og starfsemin flutt burt um síðustu aldamót, hefur verið fjölbreytt starfsemi á reitnum. Aðalbyggingin hefur síðan þá verið kölluð Orkuhúsið og lóðin gengið undir nafninu Orkureitur. Núverandi eigandi fasteignanna, fasteignafélagið Reitir, hyggst þétta byggð á Orkureitnum með áherslu á uppbyggingu íbúða í bland við aðra starfsemi. Þeir sjá fyrir sér að verslanir, með nýbreytni í starfsemi, séu staðsettar á jarðhæð og íbúðir séu með nýjum búsetuúrræðum sem henta best ungu fólki og tekjulágum. Þétting byggðar á reitnum er mjög mikilvæg vegna stefnu aðalskipulags Reykjavíkur um að þétta byggð við væntanlega Borgarlínu, en þéttleiki byggðar á lóðinni er mjög lágur í dag.
Reitir, í samvinnu við Reykjavíkurborg og Arkitektafélag Íslands, hélt lokaða hugmyndasamkeppni þar sem þremur arkitektastofum var boðið að taka þátt og urðu Alark arkitektar hlutskarpastir. Í kjölfarið var ráðist í að breyta deiliskipulagi og umhverfisvotta skipulagið og skipulagsferlið samkvæmt BREEAM Communities umhverfisvottunarkerfinu, en það er alþjóðlega viðurkennt vottunarkerfi sem byggir á hugmyndafræði BREEAM sem er vel þekkt umhverfisvottunarkerfi fyrir byggingar.
Umhverfis- og skipulagssvið VSÓ Ráðgjafar hefur verið ráðgefandi í þessu verkefni allt frá upphafi, hélt m.a. utan um hugmyndasamkeppnina, og sér um verkefnisstjórn með breytingu á deiliskipulagi í samstarfi við Alark arkitekta og Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Að auki heldur VSÓ utan um vinnu við BREEAM Communities vottunina í samvinnu við Mannvit, sem sér um hina eiginlegu vottun skipulagsins í samvinnu við Building Research Establishment (BRE) í Bretlandi.
Gert er ráð fyrir að vinnu við breytingu á deiliskipulagi ljúki sumarið 2020 og það öðlist gildi um haustið 2020. Þegar breytingin tekur gildi verður heimild til að byggja yfir 450 nýjar íbúðir á lóðinni og yfir sjö þúsund fermetra af verslunar- og skrifstofuhúsnæði, að meðtöldu því húsnæði sem mun standa áfram.
Nánar um deiluskipulagið:
Í breyttu deiliskipulagi munu nýbyggingar raða sér á jaðar lóðarinnar og teygja sig inn á reitinn þannig að úr verða skjólsæl, sólrík og gróðurrík útisvæði sem íbúar, almenningur og fólk sem starfar á reitnum, fá að njóta. Húshæðir verða frá 4 hæðum upp í 8-9 hæðir næst gatnamótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar, en þar með er skuggavarpi yfir byggð haldið í lágmarki. Við Ármúla verða nýjar verslanir og betri götumynd. Orkuhúsið, fyrrum aðalbygging Rafmagnsveitunnar, mun standa áfram og verður fókuspunktur gönguleiða og sjónása á svæðinu. Ný gönguleið, Orkuás, mun ná úr Ármúla niður að Orkuhúsinu og önnur gönguleið, sem liggur á ská frá gatnamótum Grensásvegar og Ármúla, mun opna á nýja spennandi gönguleið úr Skeifunni að Orkuhúsinu. Við Orkuhúsið er svo gert ráð fyrir nýrri Borgarlínustöð vegna fyrsta áfanga Borgarlínu sem mun liggja eftir Suðurlandsbraut. Því er jarðhæð Orkuhússins hugsuð fyrir almenna þjónustu fyrir farþegar Borgarlínunnar. Rúmgóð hjólageymsla fyrir almenning er hugsuð þar í næsta nágrenni, við svokallað Orkutorg sem verður sérlega skjólsælt og sólríkt torg sunnan við Orkuhúsið. Við torgið verður jafnframt gróðursælt blágrænt beð sem mun taka við regnvatni af yfirborði húsþaka og yfirborði bílgeymslu og stuðlað að því að sem mest af yfirborðsvatni skili sér með náttúrulegum hætti niður í jarðveginn í stað þess að auka álag á fráveitukerfi borgarinnar. Einnig er gert ráð fyrir blágrænum beðum víðar á svæðinu í þessum tilgangi. Trjám verður plantað í gróðurker og gróðurgryfjur til að gæða svæðið grænu yfirbragði og þannig bætt upp fyrir þann trjágróður sem mun þurfa að víkja fyrir nýrri byggð.
Gangi fyrirætlanir Reita eftir mun uppbygging hefjast um það bil einu til einu og hálfu ári eftir að deiliskipulagsbreytingin hefur tekið gildi og fyrstu íbúarnir geta flutt inn um það bil tveimur árum síðar, eða á árunum 2023 til 2024.