Þríhnúkagígur

Þríhnúkar eru gígaröð sem staðsett er vestur af skíðasvæðinu í Bláfjöllum.  Í norðaustasta Þríhnúknum er að finna gíginn Þríhnúkagíg en niður frá gígopinu er gríðarmikil gíghvelfing, sem í raun er uppistandandi tæmt kvikuhólf og talið vera eitt af merkustu náttúrufyrirbærum sinnar tegundar á jörðinni.

Árni B. Stefánsson, Björn Ólafsson og Einar K. Stefánsson stofnuðu árið 2004 félagið Þríhnúka ehf. með það að markmiði að vinna að frumathugun á raunhæfi þess að gera Þríhnúkagíg aðgengilegan almenningi – en jafnframt og ekki síður að tryggja að gígurinn og umhverfi hans verði varðveitt. Verkefni Þríhnúka ehf. er að varðveita þessa merku náttúrusmíð sem best og gera hana um leið aðgengilega öllum til að sjá og upplifa. Markmiðið er að fólk skynji þar betur eigin smæð og forgengileik ásamt því að öðlast dýpri tilfinningu fyrir stórfengleik náttúrunnar og sköpunarverkinu sjálfu.

Félagið fól VSÓ  að stýra undirbúningsvinnu, frumathugun á raunhæfi og fýsileika verkefnisins. Fyrsti áfangi verkefnisins fólst í að svara flestum þeim spurningum sem upp gætu komið hjá væntanlegum framkvæmdaraðila eða fjárfestum t.d. varðandi skipulagsmál, leyfisveitingar, kostnað, öryggismál s.s.hrunhættu og jarðskjálfta, að ógleymdum ýmsum álitaefnum varðandi umhverfismál og náttúruvernd. Skýrsla um frumathugun var gefin út og kynnt almenningi og hagsmunaaðilum árið 2009. Þríhnúkar ehf. ákváðu árið 2011 að halda áfram undirbúningsvinnu sem felst í að vinna mat á umhverfisáhrifum, hagræna úttekt og forhönnun.

Raunhæfasta tillagan sem komið hefur fram um aðgengi að gíghellinum felst í því að aðgengi verði um 350 m löng göng á svalir í miðri gíghvelfingunni. Svalirnar standa út í rýmið í miðjum gígnum, á 70 m dýpi og í 50 m hæð frá botni. Yfir svölunum er lokuð gosrás, eða strompur upp á við. Svalirnar eru í vari fyrir hugsanlegu hruni að ofan, varðar undir slútandi bergi. Útsýni niður á botninn er mikilfenglegt. Tvö 20 hæða hús myndu komast fyrir neðan svalanna, ef þau mjókkuðu lítillega upp.

Útsýnissvalir í gígnum og göng inn í hann eru ekki enn orðin að veruleika en þrátt fyrir það hefur 3H Travel síðan 2012 staðið fyrir ferðum fyrir almenning niður í Þríhnúkagíg yfir sumartímann en nánari uppýsingar um það má finna á vefsíðunni www.insidethevolcano.com.  Á sama tíma halda umhverfis-, jarðfræði- og markaðsrannsóknir á eldstöðinni stöðugt áfram.