Hermun umferðar
Samgöngusvið VSÓ hefur á liðnum árum komið að fjölmörgum verkefnum sem snúa að umferðartækni, umferðarskipulagi, umferðarspám, umferðaröryggi, almenningssamgöngum og mörgu fleiru. Samgöngusvið hefur jafnframt unnið fjölmörg rannsóknarverkefni í samvinnu við Vegagerðina. Má þar nefna mjög áhugavert verkefni um umferðarhermun sem unnið var nýverið og snérist um hvernig beita megi ljósastýringu til að bæta umferðarflæði um hringtorg. Hér á landi hefur ekki tíðkast að nota umferðarljós við hringtorg til að stýra umferð og ekki verið gerðar tilraunir með slíkt. Slíkar útfærslur eru þó vel þekktar erlendis, bæði ljós á einstökum örmum hringtorga og full ljósastýrð hringtorg, þ.e. með ljósastýringu á öllum örmum. Þetta verkefni er því hugsað sem fyrsta innleggið í slíka umræðu hér á landi.
Hreyfimyndin hér að ofan sýnir hermilíkan umferðar við Hlíðartorg í Hafnarfirði
Hlíðartorg í Hafnarfirði
Lýsing verkefnis
Fyrir verkefnið var valið raunverulegt dæmi til skoðunar, Hlíðartorg í Hafnarfirði, sem er á mótum Reykjanesbrautar, Lækjargötu og Hlíðarbergs, en á annatímum verða oft miklar umferðartafir á umræddu hringtorgi og langar biðraðir myndast gjarnan. Á álagstímum að morgni er tiltölulega lítil umferð á Reykjanesbraut til suðurs, þannig umferð af Lækjagötu er nánast í fríu flæði inn í hringtorgið. Þar sem langstærstur hluti umferðar af Lækjagötu fer til vinstri norður Reykjanesbraut (þriðji armur frá Lækjargötu) þá lokar sá straumur oft á tíðum fyrir umferð á Reykjanesbraut sunnan hringtorgsins þannig hún kemst ekki inn í hringtorgið og myndast því oft langar raðir á Reykjanesbraut, jafnvel suður fyrir gatnamót Kaldárselsvegar. Það sama gerist á Hlíðarbergi að bílar á leið út úr Setbergshverfinu geta átt erfitt með að komast inn í hringtorgið og freistast ökumenn þá gjarnan til að velja frekar leiðina um Hamraberg gegnum hverfið út á Reykjanesbraut.
Verkefnislausn
Hugmyndin með verkefninu var í stuttu máli sú að setja umferðarljós með stuttum lotutíma á einn arm hringtorgsins, þ.e. Lækjargötu. Markmiðið með því er að gera umferðarflæðið af Lækjargötu lotubundnara og ná þannig fram jafnara flæði um hringtorgið í heild. Byggt var upp hermilíkan af hringtorginu og aðliggjandi götum og framkvæmdar talningar á umferð til að stilla líkanið af þannig það gæfi sem besta mynd af raunverulegu ástandi.
Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að með slíkri útfærslu væri hægt að auka heildarflæði umferðar um hringtorgið umtalsvert, flæðið verður jafnara, tafir minnka og raðir styttast. Viðbúið er að tafir aukist að einhverju marki á Lækjargötu, en þær minnka hins vegar talsvert á Reykjanesbraut sunnan hringtorgsins og þannig minnka tafir fyrir umferð um hringtorgið í heild. Verkefnið var kynnt á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar árið 2015.
Nánar má fræðast um verkefnið í greinargerðinni Reykjanesbraut-Lækjargata, umferðarflæði hringtorgs bætt með ljósastýringu.
Nánari upplýsingar veitir Grétar M. Hreggviðsson