Viðhald og rekstur mannvirkja

Gerð áætlana um viðhald og rekstur eigna er mikilvægur þáttur í því að halda verðgildi eigna stöðugu á hagkvæman hátt. Áætlanirnar segja fyrir um hvenær grípa skal til viðeigandi aðgerða á markvissan hátt þannig að tilkostnaður verði sem minnstur. Þær segja ennfremur fyrir um hve miklu fjármagni þurfi að verja til viðhalds á eigninni á hverjum tíma. VSÓ Ráðgjöf hefur á að skipa sérfræðingum og búnaði til að gera langtíma- og skammtíma áætlanir um viðhald og rekstur eigna með ofangreind markmið að leiðarljósi.

Sérfræðingar VSÓ Ráðgjafar gera athuganir á eignum og segja fyrir um nauðsynlegar aðgerðir, setja þær í forgangsröð og meta kostnað við þær. Gerðar eru verklýsingar á þeim verkþáttum sem nauðsynlegt er að vinna og þeir boðnir út sé þess óskað. Á framkvæmdatíma getur VSÓ Ráðgjöf haft eftirlit með framkvæmdum.

Nánar um ráðgjafaþjónustu vegna viðhalds og endurgerðar bygginga

Skipta má ráðgjafarþjónustu VSÓ í tengslum við viðhald og endurgerð bygginga í eftirfarandi þætti:

Ástandsmat og viðhaldsáætlun

Til að hægt sé að gera raunhæfar áætlanir vegna viðhalds og reksturs eigna er mikilvægt að nákvæmt ástandsmat sé lagt til grundvallar þ.e. greining á ástandi byggingar með nákvæmri skoðun og rannsóknum þar sem það á við. Þá þarf einnig að gera frumáætlun um kostnað á þessu stigi.

Gerð útboðsgagna

Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir er hafist handa við gerð útboðsgagna þ.e. verklýsingar og magntöluskrár. Þegar útboðsgögn liggja fyrir er gerð kostnaðaráætlun sem höfð er til hliðsjónar við mat á tilboðum.

Útboð og mat á tilboðum

Nokkrar aðferðir koma til greina við öflun tilboða.  Hægt er að semja beint við ákveðinn verktaka á grundvelli útboðsgagna eða setja verkið í lokað eða opið útboð þar sem annars vegar nokkrir útvaldir verktakar eru fengnir til að gera tilboð og hinsvegar er útboðið auglýst.

Verksamningar

Þegar verktaki hefur verið valinn er gerður verksamningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs verktaka.  Verksamningur er til þess geðrur að tryggja hagsmuni viðkomandi aðila í samræmi við lög og reglugerðir.

Eftirlit

Eftirlit með framkvæmdum er fólgið í að gæta þess að verk sé unnið samkvæmt verksamningi. Í þessu felst m.a. að tryggja að verkgæði séu í samræmi við skilgreindar og eðlilegar kröfur, að kostnaður sé í samræmi vði framvindu verks og að verkinu sé lokið á tilsettum tíma.

Eignaumsýsla – Rekstur

Kröfur um markvissari stjórnun og betra skipulag við rekstur fasteigna eru sífellt að aukast og að verða almennari. Ástæður eru ýmsar og má þar m.a. nefna aukinn rekstrarkostnað og kröfur um betri nýtingu fjármagns. Eignaumsýsla felst í að tryggja að eignin þjóni hlutverki sínu á fullnægjandi hátt með sem minnstum tilkostnaði allan líftíma sinn. Markmiðið er að viðhalda verðgildi eignarinnar, tryggja notkunargildi hennar og framkvæma þessa þætti á sem hagkvæmastan hátt.

Þjónustu VSÓ við eignaumsýslu má skipta upp í nokkra meginþætti:

  • Viðhalds- og rekstraráætlanir
  • Umsjón og vöktun reksturs og viðhalds
  • Ástandsmat og viðhald bygginga
  • Aðgerðir til orkusparnaðar
  • Vistfræði húsa
  • Hússtjórnarkerfi
  • Hagkvæmis- og arðsemismat
  • Eignaskiptasamningar

Nánari upplýsingar veitir:

Kristinn Alexandersson
Sviðsstjóri verkefnastjórnunar
Byggingartæknifræðingur B.Sc.
kiddia@vso.is
s: 585 9127