20. mars 2024
Rannsókn á virkni gagnvirkrar hraðahindrunar (Actibump)
VSÓ lauk nýlega rannsóknarverkefni fyrir Vegagerðina um gagnvirka hraðahindrun sem var tekin í gagnið í júní 2021 við Ennisbraut í Ólafsvík. Hraðahindrunin er af gerðinni Actibump frá Edeva AB og virkni hennar er þannig að plata sígur niður ef keyrt er of hratt yfir hana. Ökumenn fá því áminningu og finna fyrir örlitlum óþægindum.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi:
- Hraðadreifing og hlutfall þeirra sem keyrðu yfir hámarkshraða minnkaði eftir innleiðingu á Actibump og þá sérstaklega þeirra sem keyrðu inn í bæinn. Meðaltalshlutfall þeirra sem óku of hratt féll um 1,1% milli ársins 2022-2023 fyrir þau sem keyrðu inn í Ólafsvík en um 0,1% fyrir þau sem keyrðu út úr bænum.
- Gerð var skoðanakönnun um Actibump þar sem um 115 svarendur tóku þátt (um 90% voru búar í Ólafsvík eða í Snæfellsbæ (utan Ólafsvíkur)). Um 75% svarenda virðast vera jákvæðir yfir nýju hraðahindruninni, hvað varðar virkni hennar og áhrifin á aksturslag. Jafnmargir telja gagnvirku hraðahindrunina vera betri lausn en hefðbundna hraðahindrun. Meirihluti vill sjá fleiri slíkar hraðahindranir í Ólafsvík/Snæfellsbæ og enn fleiri vildu sjá þær á fleiri stöðum á landsvísu.
- Vegna mikils frosts var Actibump hraðahindrunin óvirk frá því í janúar og þangað til síðustu vikuna í mars 2022, þeim megin vegar sem ekið er inn í Ólafsvík. Strax og hún varð virk aftur var hlutfall ökumanna sem keyrðu of hratt um 8,5%, sem er hæsta hlutfall sem mælt hafð verið fram að því. Á meðan hraðahindrunin var biluð féll aksturslag fólks því í sama far og áður og virðist það því vera lærð hegðun ökumanna að aka hraðar á meðan biluninni stóð. Hraðinn jafnaðist út á næstu tveimur mánuðum og minnkaði jafn og þétt eftir það.
Ljóst er af þessari tilraun að marktækur árangur náðist hvað varðar hraðalækkun, aksturshraði jafnaðist út og umferðarflæðið batnaði. Einnig er með því að nota Actibump hægt að ná í aragrúa af umferðartengdum upplýsingum sem geta nýst í allskonar rannsóknir þar sem framleiðandinn, fyrirtækið Edeva AB, býður upp á lifandi gagnagrunn. Eins og staðan er í dag eru því fáir staðir á Íslandi sem eru eins vel mældir m.t.t. umferðar og Ennisbrautin í Ólafsvík.