5. september 2017
Framkvæmdir að hefjast við Skarðshlíðarskóla
Fyrsta skóflustunga að byggingu Skarðshlíðarskóla í Hafnarfirði var tekin þann 21. ágúst síðastliðinn og eru framkvæmdir við fyrsta áfanga skólans nú að hefjast. Fullbyggður verður skólinn u.þ.b. 8.900 m2 en hann samanstendur af 6.800 m2 grunnskóla, 760 m2 leikskóla, 480 m2 tónlistarskóla og 870 m2 í þróttahúsi. Alls mun skólin rúma 400-500 grunnskólanemendur, 80-90 leikskólanemendur og útibú frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sem getur annað allt að 200 nemendum.
Fyrsta áfanga framkvæmdarinnar á að vera lokið haustið 2018 og munu þá fyrstu grunnskólabörnin hefja nám við skólann. Fyrirhugað er að byggingu leikskólans verði lokið sumarið 2019 og að skólinn verði fullbyggður ári síðar, sumarið 2020. Byggingarnar verða hannaðar samkvæmt hugmyndafræði algildrar hönnunar. Í því felst að hanna góðar lausnir með jafnrétti og vellíðan fólks í fyrirrúmi.
Það er verktakafyrirtækið Eykt sem sér um að byggja skólann. Hönnun jarðvinnu, burðarvirkja, lagna, loftræsingar, rafkerfa og lóðar er í höndum VSÓ.