15. október 2021
Starfsfólk VSÓ gróðursetur tré til að minnka kolefnissporið
VSÓ Ráðgjöf er annt um umhverfið og vill leggja sitt af mörkum til að draga úr kolefnisspori vegna starfsemi sinnar. Frá 2011 hefur fyrirtækið unnið markvisst eftir umhverfis- og samgöngustefnu með sjálfbærni að leiðarljósi. Starfsfólk fyrirtækisins vinnur jafnframt að ýmsum spennandi verkefnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Starfsfólk er líka hvatt til að velja vistvænar samgöngur.
Árlega er haldinn CO2 leikur VSÓ, „Kælum plánetuna“ og starfsfólki gefin stig fyrir að nýta sér vistvænar samgöngur til og frá vinnu. VSÓ gróðursetur tré í samræmi við áunnin stig í gróðurreit við Reynisvatn. Þannig hefur okkur tekist að binda 100-200 kg af gróðurhúsalofttegundum árlega. Það er ánægjulegt frá því að segja að árið 2021 voru gróðursett 71 tré sem er mesti fjöldinn frá 2016, þegar leikurinn hófst. Á síðasta ári spöruðum við því 15.901 km.
Síðastliðið haust gerðu starfsfólk og fjölskyldur þeirra sér glaðan dag í tilefni gróðursetningar tránna við Reynisvatn. Það er góð tilfinning að geta lagt sitt af mörkum í þágu umhverfisins í skemmtilegum félagsskap. Margt smátt gerir eitt stórt og við ætlum að gera enn betur á þessu ári.