30. október 2022
Starfsfólk VSÓ gróðursetur tré til að minnka kolefnissporið
Starfsfólk VSÓ og fjölskyldur gróðursettu fyrr í haust 72 nýjar trjáplöntur í trjáræktarlundi fyrirtækisins við Reynisvatn. Mikill drifkraftur og gleði ríkti í hópnum enda einmuna blíða, verkefnið skemmtilegt og tilfinningin góð að geta lagt sitt af mörkum í þágu umhverfisins.
Gróðursetning trjánna er liður í átaki VSÓ við að draga úr kolefnisspori vegna starfsemi sinnar. Átakið er tvíþætt þ.e. starfsfólk er hvatt til að nýta vistvænar samgöngur á leið til og frá vinnu og safnar yfir sumartímann stigum fyrir hverja ferð, tré eru svo gróðursett í samræmi við áunninn stigafjölda allra þátttakenda. Með þessum hætti tókst sumarið 2022 að spara 15.341 óvistvæna kílómetra og 3.148 kg af CO2 úrgangi.
Árið 2022 er sjötta árið síðan gróðursetning á trjám í lundinum hófst og gaman er að sjá hvernig þær fjölbreyttu tegundir sem gróðursettar hafa verið, undir handleiðslu landslagsarkitekta VSÓ, hafa vaxið og dafnað með ári hverju. Til að fylgjast nánar með því var í haust tekin upp sú nýbreytni að mæla hæð nokkurra þeirra trjátegunda sem gróðursettar voru í ár en þær verða svo mældar á ný hvert haust og haldið bókhald um ársvöxtinn. Óhætt er að segja að áhugavert verði að fylgjast með því hvernig það kemur út.
VSÓ Ráðgjöf vill leggja sitt af mörkum til að draga úr kolefnisspori vegna starfsemi sinnar. Frá 2011 hefur fyrirtækið unnið markvisst eftir umhverfis- og samgöngustefnu með sjálfbærni að leiðarljósi. VSÓ er kolefnishlutlaust fyrirtæki og kolefnisjafnar allan rekstur sinn m.a. með skógrækt í samstarfi við Kolvið.