14. desember 2021
Ný hverfismiðstöð opnar í Úlfarsárdal
Ný hverfismiðstöð í Úlfarsárdal í Reykjavík var opnuð við formlega athöfn þann 11. desember síðastliðinn. Í miðstöðinni er að finna bæði sundlaug og bókasafn sem deila afgreiðslu, en að auki tilheyrir hverfismiðstöðinni leik- og grunnskóli, ásamt frístundaheimili. Hönnun miðstöðvarinnar er glæsileg í alla staði og búnaður og aðstaða til mikillar fyrirmyndar. Þar er til dæmis fullbúið hljóðver, upptökuver og hengikoja. Þá er óvanalegt að í sömu byggingu séu bæði sundlaug og bókasafn og talsverð áskorun var fyrir arkitekta og verkfræðihönnuði að flétta saman þá ólíku starfsemi. Í sumarbyrjun 2022 mun svo íþróttahús knattspyrnufélagsins Fram bætast við og síðar sama ár verður keppnisvöllur utanhúss vígður.
Mannvirkin eru í heild um 18 þúsund fermetrar. Framkvæmdir hafa spannað u.þ.b. 6 ár og er framkvæmdin ein sú stærsta sem Reykjavíkurborg hefur ráðist í. Arkitektar bygginganna eru VA Arkitektar, Landmótun sá um lóðarhönnun og VSÓ Ráðgjöf sá um alla verkfræðihönnun.
VSÓ óskar Reykjavíkurborg innilega til hamingju með opnunina og þessa glæsilegu aðstöðu!