5. janúar 2024
Uppsteypa á nýju rannsóknarhúsi Landspítalans við Hringbraut að hefjast
Í desember sl. skrifuðu Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra og Páll Daníel Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eyktar ehf. undir samning um uppsteypu á rannsóknarhúsi Landspítalans við Hringbraut. Undirbúningur uppsteypu er þegar hafinn og hefst uppsteypan sjálf síðar á þessu ári. Rannsóknarhúsið verður á 5 hæðum ásamt kjallara á einni hæð, alls ~17.500 m². Byggingin mun sameina alla rannsóknarstarfsemi spítalans á einn stað og bæta til muna aðstöðu til rannsókna og vísindastarfa í heilbrigðisgeiranum.
Hönnun byggingarinnar er í höndum hönnunarhópsins Corpus3, sem samanstendur af fyrirtækjunum Basalt, Hornsteinum, Lotu og VSÓ Ráðgjöf. Hlutverk VSÓ í hönnunarhópnum er m.a. hönnun jarðtækni, burðarvirkja og lagnakerfa ásamt verkefnastjórnun hönnunar allra fagsviða.
Burðarvirki sem gerir ráð fyrir breytilegri starfsemi
Burðarvirki hússins er úr járnbentri steinsteypu. Val á burðarvirki miðar að því að tryggja möguleika á sem mestum breytanleika í starfsemi spítalans.
Gólfplötur eru mestmegnis bornar uppi af súlum sem ganga samfellt upp allar hæðir hússins. Til þess að lagnaleiðir tæknikerfa verði sem greiðastar, hvíla gólfplötur beint á súlunum en ekki á gólfbitum milli súlna. Auk þess að bera lóðrétt álag eru gólfplötur hluti af afstífingarkerfi hússins og flytja lárétta krafta með skífuvirkni til afstífandi veggja hússins, sem svo flytja þá áfram niður til undirstaðna og berggrunnsins. Stöðugleiki hússins gagnvart láréttu álagi er tryggður með kerfi afstífandi veggja. Til þess að ná sem mestum sveigjanleika í innréttingum og breytanleika í starfsemi spítalans til frambúðar, eru afstífandi veggir mestmegnis staðsettir í útveggjum. Um staka veggi er að ræða, samfellda frá þakplötum til undirstaðna. Veggirnir eru allir með sams konar gatamynstri fyrir glugga- og dyraop. Aðrir veggir eru ekki steyptir og gegna þeir ekki afstífandi hlutverki í húsinu. Byggingaskil skipta byggingunni í tvær einingar.
Rannsóknahúsið er grundað á klöpp. Efstu lög berggrunnsins samanstanda af svokölluðu Reykjavíkurgrágrýti, dæmigerðu dyngjuhrauni sem rann á hlýskeiðum ísaldar. Bergið er myndað úr hallalitlum hraunlögum, oftast 0,5-4 m. þykkum, sem liggja hvert ofan á öðru. Þykkari hraunlögin eru að jafnaði þétt og grófstuðluð um miðbikið en blöðrótt til jaðranna. Berggæði klappar voru metin af 17,5 m. löngum borkjarna og einása brotstyrkur bergsins mældur. Hann reyndist vera á bilinu 30-70 MPa. Við hönnun undirstaðna er miðað við að klöppin beri allt að 5 MPa álag.